Katrín Jakobsdóttir endurkjörin formaður VG

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Katrín Jakobsdóttir voru endurkjörin í forystusveit VG um helgina. Aðsend mynd.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Katrín Jakobsdóttir voru endurkjörin í forystusveit VG um helgina. Aðsend mynd.

Katrín Jakobsdóttir, var endurkjörin formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á rafrænum landsfundi hreyfingarinnar sem fram fór um helgina. Guðmundur Ingi Guðbrandsson var jafnframt endurkjörinn varamaður og Rúnar Gíslason endurkjörinn gjaldkeri. Engin mótframboð bárust í þessi embætti. Í skeyti frá flokknum til fjölmiðla segir að öllu meiri spenna hafi verið í kosningum til ritara en tvær buðu sig fram. Sóley Björk Stefánsdóttir og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir. Sóley Björk var kjörin.

Meðstjórnendur eru: Elín Björk Jónasdóttir, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Andrés Skúlason, Sæmundur Helgason, Elva Hrönn Hjartardóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir og Pétur Heimisson. Varamenn eru Álfheiður Ingadóttir, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Líf Magneudóttir og Sigríður Gísladóttir.

Það skiptir máli hver stjórnar
„Með VG í forystu ríkisstjórnar höfum við hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi að tryggja öllum velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum. Það skiptir alltaf máli en ekki síst þegar óvænt áföll dynja á. Stjórnmál samtímans snúast um að brúa bilið milli þeirra verst settu og þeirra best settu og auka þannig sátt, samstöðu og velsæld til framtíðar. Það þarf að láta verkin tala, leysa úr ágreiningi og vera reiðubúin að gera málamiðlanir til að ná árangri fyrir samfélagið allt,“ segir í tilkynningunni.

VG leggur áherslu á að hreyfingin leiði næstu ríkisstjórn að loknum kosningum í haust og segir í ályktun landsfundar að málefnalegur árangur Vinstri-grænna af núverandi stjórnarsamstarfi sé óumdeildur en framundan eru stór verkefni.

„Næsta ríkisstjórn þarf að halda áfram á sömu braut og leggja enn frekari áherslu á loftslagsmálin, draga enn meira úr losun, auka kolefnisbindingu og sjá til þess að aðgerðir gegn loftslagsvánni tryggi réttlát umskipti þannig að þær bitni ekki tekjulágum. Við eigum að setja okkur enn metnaðarfyllri markmið um samdrátt – stefna að a.m.k. 60% samdrætti árið 2030 og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir