Kartöflur með kryddkvark og rússnesk klípukaka
Það er þýski Miðfirðingurinn Henrike Wappler sem gaf okkur uppskriftir í 31. tölublaði Feykis sumarið 2018. Henrike, sem er frá Bautzen í Saxlandi sem tilheyrir hinu gamla Austur-Þýskalandi, kom til Íslands árið 1999 og er hér enn. Hún er félagsráðgjafi að mennt og starfar sem slíkur hjá fjölskyldusviði Húnaþings vestra og einnig Skagafjarðar. Henrike er gift Friðrik Jóhannssyni, bónda á Brekkulæk í Miðfirði, þar sem þau búa með börnum sínum þremur. „Ég er stödd í Bautzen, í sumarfríi hjá fjölskyldunni minni, og ætla því að koma með tvær uppskriftir héðan frá Þýskalandi,“ sagði Henrike.
RÉTTUR 1
Pellkartoffeln mit Kräuterquark (skrældar kartöflur með kryddkvark)
Fyrst er það uppskrift að hádegismat sem var fyrr á tímum borðaður nokkrum sinnum í viku og er í uppáhaldi hjá mér. Það er „Pellkartoffeln mit Kräuterquark“ sem eru skrældar kartöflur með kryddkvark. Þar sem kvark fæst ekki á Íslandi nota ég skyr og gengur það vel.
kartöflur – eins margar og þarf
skyr – t.d. 250 g
mjólk til að hræra í skyrið
salt, pipar, paprika
ferskar kryddjurtir eins og steinselja, graslauk ur og dill
saxaður laukur
hörfræolía
smjör
Aðferð:
Kartöflur eru soðnar með hýði, sem er ekki algengt í Þýskalandi, og ef það eru nýjar kartöflur má svo gjarnan borða þær með hýðinu. Mjólkin er svo hrærð út í skyrið eins og gert er fyrir sætt skyr. Svo er það kryddað með salti, pipar, papriku og ferskum kryddjurtum sem til eru hverju sinni. Einnig er söxuðum lauk bætt við. Hörfræolía fæst núna í góðum matvörubúðum eins og KVH (á Hvammstanga) en fyrstu árin mín á Íslandi kom ég með hana frá Þýskalandi. Það eru ekki allir hrifnir af hörfræoliu (Friðrik mínum finnst hún líklega jafn slæm og mér lýsi), en ég lauma gjarnan einni matskeið í skyrið, það tekur enginn eftir því.
Og meira þarf ekki að gera! Við borðum kartöflurnar heitar, tökum hýðið af eða ekki, stráum salti yfir og höfum (kalda) skyrblöndu með. Ég set slatta af hörfræolíu yfir kartöflurnar en þau sem vilja það ekki nota bara smjörklípu. Þetta er mjög góður og hollur matur!
RÉTTUR 2
Russischer Zupfkuchen
Seinni uppskriftin er af köku sem kallast Russischer Zupfkuchen eða rússnesk „klípu“kaka en hún kemur samt ekki frá Rússlandi, það hljómaði bara svo vel þegar þessi uppskrift kom fram í kökusamkeppni. Eins og með fyrri uppskriftina er hún upprunalega með kvark en ég nota bara skyr í staðinn.
Deig:
1 egg
150 g sykur
250 g smjörlíki
400 g hveiti
15 g lyftiduft
50 g kakóduft
Fylling:
3 egg
200 g sykur
vanillusykur/vanilludropar
250 g smjör
½ poki vanillubúðingsduft (eins og fyrir 500 ml mjólk)
500 g skyr
Aðferð:
Deigið er hrært saman, fyrst egg og sykur, svo er smjörlíki bætt við og loks þurrefnum. Helmingur er settur í botn og upp með hliðinni á stóru, kringlóttu kökuformi, hinn helmingurinn er geymdur til að setja ofan á.
Fyllingin er einnig hrærð saman, egg og sykur fyrst, svo er hinu bætt við. Þessu er svo hellt ofan á botninn og loks er hinn helmingurinn af deiginu settur ofan á. Það er gert með því að taka klípu og klípu af deigi og setja á fyllinguna. Það heitir „Zupfen“ á þýsku og þaðan kemur nafnið á kökunni.
Kakan er svo bökuð við 200°C í 50 mínútur, passið samt að hún verði ekki of dökk. Hún þarf að vera orðin köld þegar hún er borðuð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.