Karlafótbolti á Króknum og Hvammstanga í dag

Iðagrænn Kirkjuhvammsvöllur vökvaður í báða enda. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS
Iðagrænn Kirkjuhvammsvöllur vökvaður í báða enda. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS

Nú fer að styttast í afturendann á keppnistímabili tuðrusparkara og í dag fara fram tveir leikir á Norðurlandi vestra. Fyrst mæta Tindastólsmenn glaðbeittum Garðbæingum á Sauðárkróksvelli í 13. umferð 3. deildarinnar og seinni part dags mætir Kormákur/Hvöt vinalegum Vatnaliljum í D-riðli 4. deildar en leikurinn fer fram á Kirkjuhvammsvelli.

Lið Kormáks/Hvatar er í öðru sæti í riðlinum og má ekki við því að misstíga sig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Þeir mæta sem fyrr segir Vatnaliljunum á Kirkjuhvammsvelli sem er á Hvammstanga. Leikurinn hefst kl. 17 og um að gera að drífa sig á völlinn sem er nývökvaður, iðagrænn og óvenjulítið kalinn, samkvæmt færslu á aðdáendasíðu heimaliðsins. Þar segir líka að varamannaskýlin séu nýmáluð og hafa víst aldrei verið fallegri. Hver hefur ekki smekk fyrir fallegum og vel hirtum varamannaskýlum?

Á Króknum þurfa heimamenn að girða sig í brók eftir basl í síðustu umferðum. Aðspurður í gærmorgun um standið á leikmannahópi Stólanna fyrir leikinn gegn KFG, sem hefst kl. 14, ssgði Haukur þjálfari Skúla tvo leikmenn vera í leikbanni, Hólmar Daða og Konna fyrirliða. „Jóhann Daði er einnig frá. Þeir sem voru að glíma við veikindi [í síðasta leik] eru hins vegar orðnir klárir. Erum reyndar með þrjá leikmenn í sóttkví sem þurftu að fara í sýnatöku en tveir þeirra losna í dag og sá þriðji ætti að losna í fyrramálið,“ segir Haukur en tók fram að um varúðarráðstafanir hefði verið að ræða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir