Kalt í veðri næstu daga
Það er varla hægt að segja þessa dagana að „viðmjúk strjúki vangana vorgolan hlý" eins og segir í kvæðinu og hlýrabolir og stuttbuxur mega bíða þess inni í skáp að þeirra tími komi enn um sinn en treflar og lopapeysur koma áfram í góðar þarfir. Þó gæti tíðarfarið eitthvað farið að breytast til batnaðar í byrjun næstu viku ef spár rætast.
Veðurspáin gerir ráð fyrir að í dag verði suðvestan 8-13 og dálitlar skúrir á Norðurlandi vestra með hita upp á 5 til 10 stig. Í fyrramálið verður hægviðri og skýjað en úrkomulítið. Seinni partinn á morgun verður svo komin norðanátt og bjartviðri með kólnandi veðri.
Næstu daga er svo gert ráð fyrir áframhaldandi norðlægum áttum og í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að útlit sé fyrir svala daga fram á sunnudag en þá fari að hlýna. Framan af næstu viku sé ágætt útlit hvað hita varðar og um norðanvert landið ætti að sjá til sólar að auki. Á mánudag og þriðjudag spáir suðlægri átt og vætu með köflum en yfirleitt þurru norðanlands. Hiti verður 6 til 13 stig, hlýjast fyrir norðan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.