Farskólinn með spennandi og fjölbreytt námskeið nú á vorönn
Farskólinn býður upp á spennandi námskeið á vorönn 2025 en þau eru blanda af vefnámskeiðum sem hægt er að sækja hvaðan sem og staðnámskeiðum sem eru í boði á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd og Sauðárkróki. Námskeiðin hafa aldrei verið fleiri eða fjölbreyttari en í ár og eru öllum opin. Eins og áður eru þau gjaldfrjáls fyrir félagsmenn stéttarfélaganna Öldunnar, Kjalar, Sameykis, Samstöðu og Verslunarmannafélags Skagafjarðar segir á huni.is
Farskólinn hvetur fólk til þess að skrá sig strax á þau námskeið sem það hefur áhuga á en skráning er ekki bindandi fyrr en búið er að staðfesta hana aftur, rétt fyrir námskeiðs byrjun.
Nánari lýsingar er að finna hér: https://farskolinn.is/namskeid/stettarfelog/
Samstarf við stéttarfélögin síðan 2014
Halldór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Farskólans, segir í samtali við Húnahornið að skólinn sé búinn að vera í frábæru samstarfi við stéttarfélögin á svæðinu síðan 2014 en þá hafi þau verið þrjú: SFR, nú Sameyki, Samstaða og Kjölur, og námskeiðin sem í boði voru hafi verið þrjú: Aukin starfsgleði og sátt, Sundnámskeið og Verslað á netinu. Samstarfið hafi svo vaxið og dafnað og í dag séu félögin orðin 39 og námskeiðin á vorönn aldrei verið fleiri eða 29 talsins. Félögin eru Aldan, Eining Iðja, Kjölur, Sameyki, Samstaða og Verslunarmannafélag Skagafjarðar auk 32 aðildarfélaga Iðunnar Fræðsluseturs.
Halldór nefnir jafnframt að það er ekki kvóti á fjölda námskeiða, þátttaka snertir ekki persónulegan rétt félagsmanna hjá félaginu og reikningurinn fer beint á félagið. Það eina sem fólk þarf að gera er að skrá sig og mæta. Fjarnámskeiðin eru flest tekin upp, þannig að ef þátttakendur komast ekki á námskeiðið í rauntíma þá fær viðkomandi sendan hlekk á upptöku. „Við hvetjum fólk til að skrá sig á allt sem það hefur áhuga á og þegar það eru 4-5 dagar í námskeiðið þá höfum við samband og getur fólk sagt af eða á. Við viljum frekar að fólk afskrái sig heldur en að það missi af,“ segir Halldór.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.