Kærkominn sigur Tindastóls kom í Kópavoginum
Augnablik tók á móti liði Tindastóls á Kópavogsvelli í gærkvöldi í 3. deild karla í knattspyrnu. Stólarnir höfðu tapað fjórum leikjum í röð í deildinni og útileikur gegn einu af liðunum sem er að berjast um að komast upp í 2. deild því kannski ekki óskastaðan fyrir Hauka þjálfara og lærisveina hans. En strákarnir komu sperrtir til leiks og sýndu að þeim er ekki alls varnað. Lokatölur 2-4 og þrjú dýrmæt stig fleyttu liðinu upp úr fallsæti.
Það var Pape Mamadou Faye sem gerði fyrsta mark Stólanna eftir 21 mínútu og Raul Sanjuan Jorda bætti öðru marki við með skalla eftir hornspyrnu tíu mínútum síðar. Hrannar Jónsson lagaði stöðuna fyrir heimamenn á 36. mínútu en það var síðan Arnór Guðjónsson sem átti lokaorðið í fyrri hálfleik þegar hann gerði þriðja mark Stólanna á fyrstu mínútu uppbótartíma. Stólarnir bökkuðu talsvert í síðari hálfleik og heimamenn gerðu harða hríð að marki gestanna. Þeir minnkuðu muninn á 62. mínútu með marki frá Rúnari Eysteinssyni en leikmenn Tindastóls náðu góðri skyndisókn seint í leiknum og uppskáru víti. Konni fór á punktinn og honum brást ekki bogalistin og tryggði stigin þrjú.
Hafa ekki tapað trúnni á að snúa genginu við
„Leikurinn var heilt yfir góður,“ sagði Haukur Skúla, þjálfari Stólanna, þegar Feykir leitaði eftir viðbrögðum hans við sigrinum nú í hádeginu. „Mikil stöðubarátta í fyrri hálfleik, sérstaklega þar sem við urðum ofan á. Bökkuðum helst til mikið í seinni hálfleik en náðum einni góðri skyndisókn til að gulltryggja sigurinn. Mikilvægt fyrir okkur að ná að landa sigrinum og sýna okkur sjálfum að við getum haldið forystu út leiktímann.
Var mikill léttir að ná loks sigri? „Þetta var vissulega léttir eftir slæm úrslit að undanförnu. Sérstaklega sveið tapið gegn Elliða þar sem við vorum mun betra liðið a vellinum en fengum ekkert fyrir það. Frammistaðan hefur hins vegar verið betri en úrslitin hafa gefið til kynna og því höfum við ekki tapað trúnni á að ná að snúa genginu við.“
Hvernig leggjast síðustu umferðirnar í 3. deildinni í Stólana? „Lokaumferðirnar leggjast vel í okkur, liðið spilar vel út á velli og þegar við náum að vinna baráttuna, eins og á móti Augnablik, þá eru okkur allir vegir færir,“ segir Haukur að lokum.
Lið Tindastóls, semt á eftir að spila sjö leiki í deildinni, er nú með 13 stig í tíunda sæti. ÍH er með 11 stig en á tvo leiki til góða og Einherji er í botnsætinu með 10 stig og á einn leik inni á Stólana. Það er því allt útlit fyrir taugastrekkjandi lokaumferðir en það er ekki spurning að lið Tindastóls er nógu gott til að bjarga sér – það þarf bara að uppskera eins og til er sáð!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.