K-Tak og Þ-Hansen ný inn á lista framúrskarandi fyrirtækja
Alls eru 92 fyrirtæki, eða 10,5% af heildarfjöldanum, á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki í ár staðsett á Norðurlandi. Fimm efstu sæti listans á Norðurlandi eru öll í flokki stórra fyrirtækja. Þau skipa FISK-Seafood á Sauðárkróki, Rammi á Siglufirði og Búfesti, KEA og SS Byggir sem öll eru á Akureyri en 48% fyrirtækjanna á listanum á Norðurlandi eru staðsett á Akureyri.
Níu fyrirtæki á Norðurlandi hafa verið á listanum á hverju ári síðan hann kom fyrst út árið 2010 en það eru þau Trétak, Kælismiðjan, Sætak, Dekkjahöllin, Rafeyri, Fóðurverksmiðjan Laxá, Trésmiðjan Rein, Garðræktarfélag Reykhverfinga og Steinull.
Þrettán fyrirtæki á Norðurlandi koma ný inn á listann í ár; Finnur, BB Byggingar, Vökvaþjónusta Kópaskers, Klemenz Jónsson, HeiðGuðByggir, Ekill, Alkemia, Marúlfur, Vinnuvélar Reynis B. Ingólfssonar, Ekja, Stóru-Tjarnir, K-Tak og Þ-Hansen.
Þess má geta að Drangsnes er með óvenju hátt hlutfall framúrskarandi fyrirtækja en 17% fyrirtækja sem eiga ársreikning fyrir 2021 uppfylla kröfur Creditinfo, eða 2 af 12 fyrirtækjum. Það er hækkun frá því í fyrra en þá var hlutfallið 11%.
Nánar um Framúrskarandi fyrirtæki:
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Þetta er í þrettánda sinn sem Creditinfo veitir framúrskarandi fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi vottun fyrir góðan og traustan rekstur en listinn í ár var gerður opinber á viðburði í Hörpu á miðvikudag. Alls hafa 1.881 fyrirtæki einhvern tímann komist á listann en aðeins 54 þeirra hafa hlotið nafnbótina öll árin. Þegar Creditinfo metur hvort fyrirtæki teljist framúrskarandi er m.a. horft til þess hvort ársreikningi hafi verið skilað á réttum tíma, og þegar litið sé til síðustu þriggja ára sé rekstrarhagnaður, ársniðurstaðan jákvæð, rekstrartekjur að lágmarki 50 millj. kr. og eiginfjárhlutfall a.m.k. 20%. Um 39 þúsund fyrirtæki skila ársreikningi en þegar litið er til allra annarra skilyrða sem fyrirtæki þurfa að uppfylla, þá teljast aðeins um 2% fyrirtækja framúrskarandi.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.