Jóna Fanney starfar óflokksbundin í Bæjarstjórn Blönduósbæjar
Átakabæjarstjórnarfundur var í gær hjá Blönduósbæ þegar tekið var á máli meirihluta E-listans við ráðningar á bæjarstjórum á kjörtímabilinu 2006-2010 og við starfslok fyrri bæjarstjóra. Eins og kunnugt er, er Jóna Fanney Friðriksdóttir fyrrv. bæjarstjóri afar ósátt við afgreiðslu þess máls og sakar samherja sína í bæjarstjórn um óheilindi gagnvart henni.
Einnig var erindi Láru V. Júlíusdóttur hrl. fyrir hönd Jónu Fanneyjar þar sem hún gerir kröfu um greiðslu tæplega 3ja milljóna vegna mismunar á launum hennar og núverandi bæjarstjóra út núverandi kjörtímabil.
Valgarður Hilmarsson rakti feril ráðninga þeirra sem gegnt hafa starfi bæjastjóra frá 2006. Fram kom að samningar þessir hafa ekki alltaf verið lagðir fyrir bæjarstjórn. Varðandi síðasta samninginn vitnaði Valgarður í fundargerð frá 9. okt. 2007 þar sem Jónu Fanney Friðriksdóttur var falið að ganga frá samningi við núverandi bæjarstjóra. Valgarður gekk frá þeim samningi í samráði við meirihluta. Sá samningur var ekki lagður fyrir bæjarstjórn til samþykktar þrátt fyrir að kallað hefði verið eftir því af öðrum sveitarstjórnarmönnum.
Jóna Fanney Friðriksdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
„Ráðningasamningar undirritaðrar sem fyrverandi bæjarstjóra, voru lagðir fyrir Bæjarstjórn þann 16. júlí 2002 og fyrir bæjarráð þann 19. júlí 2006 (sem hafði fullnaðarafgreiðslu mála í hendi í sumarleyfi bæjarstjórnar), enda kveður 59. gr. samþykkta um stjórn og fundarsköp Blönduóabæjar á um það. Þar segir orðrétt: „Bæjastjórn ræður bæjarstjóra. Gera skal skriflegan ráðningarsamning við bæjarstjórann þar sem meðal annars skal kveðið á um ráðningartíma hans, kaup og kjör. Ráðningarsamningur skal staðfestur af bæjarstjórn“. Gefum okkur að mannleg gleymska hafi átt sér stað og gleymst hafi að staðfesta ráðningasamninginn fyrir bæjarstjórn á sínum tíma haustið 2007. Það breytir því ekki að bæjarfullrúi Á-listans bendir á þessa staðreynd í bókun sinni i bæjarráði nokkrum mánuðum síðar eða í júní 2008. Þar óskar hann skriflegra svara á komandi fundi bæjarstjórnar við þeirri spurningu um hvenær ráðningarsamningur núverandi bæjarstjóra hafi verið staðfestur. Af hverju var spurning hans hunsuð á fundi bæjarstjórnar í júní 2008 og af hverju var ráðningarsamningurinn ekki lagður fram í kjölfarið eins og reglur kveða á um?“
Valgarður sagðist taka á sig mistök varðandi framgang mála en hann bæri varla ábyrgð á þeim einn og vísaði til annarra fulltrúa meirihlutans.
Fram var lögð eftirfarandi bókun frá þeim Ágústi Þór Bragasyni, D- lista, Kára Kárasyni D-lista og Valdimar Guðmannssyni Á-lista.:
„Undirritaðir bæjarulltrúar D og Á – lista bjóðast til að taka tímabundið að sér stjórnun bæjarstjórnar og bæjarráðs. Tillagan felur það í sér að kjörnir fulltrúar E-listans stígi til hliðar á meðan farið er í saumana á þeim ágreiningi sem þar er. E-listinn fékk 4 kjörna bæjarfulltrúa í síðustu kosningum og því hreinan meirihluta bæjarstjórn. Á síðustu mánuðum hefur bæjarstjórn staðið þétt saman að stjórnun bæjarins og afgreiddi meðal annars fjárhagsáætlun 2009 samhljóða á fundi í desemeber síðastliðnum. Þennan ávinning af góðu samstarfi innan bæjarstjórnar viljum við varðveita. Í ljósi þeirra ágreiningsefna sem fram hafa komið teljum við rétt að bjóða E-listanum að fá tækifæi til þess að fara í gegnum sín mál og í framhaldi af því taka afstöðu til þess hvort ekki séu forsendur til þess að þeir aftur við stjórnun bæjarins að einhverjum tíma liðnum.“
Í lok fundarins lét Jóna Fanney bóka eftirfarandi bókun: „Ég undirituð, Jóna Fanney Friðriksdóttir, harma þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í stjórnsýslu Blönduósbæjar í nafni E-listans undanfarna mánuði. Sbr. bréf, dags. 28. janúar sl. sem mér barst í ábyrgðarpósti frá Valgarði Hilmarssyni, Jóni Aðalsteini Sæbjörnssyni og Héðni Sigurðssyni líta þeir svo á að meirihlutasamstarfi okkar sé lokið. Ástæðu slitanna telja þeir framgöngu mína undnfarna daga. Ég bendi hins vegar á að framganga þeirra í minn garð síðustu 15 mánuði byggir á trúnaðabresti, skýlausu lögbroti og leynd á upplýsingum til mín sem
meirihlutafulltrúa og samherja þeirra undir merkjum E-listans. Ég harma það jafnframt að áður hefur verið brotið á mér af sveitarfélaginu hvað jafnréttislög varðar og að stjórnsýsla Blönduósbæjar sé ekki þroskaðri en svo að menn læri af reynslunni. Ég hef tekið þá ákvörðun að starfa ein og óháð innan bæjarstjórnar út kjörtímabilið, bundin lögum og sannfæringu minni um afstöðu til einstakra mála og mun ég gegna störfum mínum af alúð og samviskusemi sbr. 28 gr. sveitarstjórnarlaga frá 1998/45, fyrst og síðast með hagsmuni íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.