Jón Karl Karlsson - Minning
Góður Lionsfélagi Jón Karl Karlsson er fallinn frá á 87. aldursári. Útför hans var gerð frá Sauðárkrókskirkju þann 12. febrúar s.l. Lionskúbbur Sauðárkróks minnist hans með virðingu og þökk fyrir hans miklu Lionsstörf.
Jón starfaði í Lionsklúbbi Sauðárkróks frá 1967, var formaður hans 1973-1974 og 1999 2000, hann var umdæmisstjóri B-umdæmishreyfingarinnar á Íslandi 1984–1985, og fjölumdæmisstjóri hreyfingarinnar 1985–1986. Einnig var hann kjörinn Melvin – Jones–félagi Lions 1988.
Eins og sést þá krefst slíkt félagsstarf mikils tíma og fórnfýsi. Jón gegndi fjölda nefndastarfa á vegum klúbbsins, gegnum tíðina, og var ötull félagi. Með dugnaði sínum í Lions má segja að Jón hafi vakið athygli á starfsemi Lionsklúbbs Sauðárkróks á landsvísu. Í slíkum félagsskap verður oft glatt á hjalla
og minnumst við félagar óteljandi gleðistunda í gamni og alvöru öll þessi samstarfsár í Lions, á fundum, árshátíðum og ekki síst á tveimur fjölumdæmisþingum Lions árin 2004 og 2014 sem haldin voru í Skagafirði með glæsibrag.
Ekki er hægt að skilja við þessar minningar án þess að minnast hans góðu eiginkonu, Hólmfríðar Friðriksdóttur, sem starfaði sem klettur við hlið hans í Lionshreyfingunni, enda var hún félagi í Lionsklúbbnum Björk á Sauðárkróki til fjölda ára, en Hólmfríður lést 2. febrúar 2013.
Víst er að allt hefur sinn tíma og nú eru þau hjón farin yfir móðuna miklu. Lionsklúbbur Sauðárkróks þakkar fyrir samfylgdina og mikið Lionsstarf. Öllum aðstandendum eru sendar dýpstu samúðarkveðjur.
Með Lionskveðju
Bragi S. Haraldsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.