Jólin í Gránu á laugardaginn
Gömlu góðu jólalögin verða flutt af vöskum söngvurum og hljóðfæraleikurum úr Skagafirði næstkomandi laugardagskvöld í Háa salnum í Gránu á Sauðárkróki. Að sögn Huldu Jónasar, tónleikahaldara, er um ljúfa tónleika að ræða þar sem þemað eru gömlu góðu jólalögin sem allir þekkja og hafa fylgt okkur í gegnum áranna rás.
„Markmiðið er að skapa ljúfa og notalega jólastemmingu í Gránu viku fyrir jólin. Við ætlum að opna húsið kl 19.30 eða klukkutíma fyrir tónleika og er ekki alveg tilvalið að mæta snemma og fá sér eitt léttvínsglas eða kaffibolla og njóta þess að vera til?“ spyr Hulda sem segist að vísu hafa frétt að það verði kolvitlausir jólasveinar á svæðinu. „Við vonum bara að þeir verði ekki mikið að hrella tónleikagesti, hvað veit maður hvað þeim dettur í hug ?“
Aðalsöngvarar kvöldsins eru feðginin Ása Svanhildur og Guðbrandur Ægir, tvíburabræðurnir Ingi Sigþór og Róbert Smári, mæðginin Eysteinn Ívar og Sigurlaug Vordís og brottflutti Króksarinn Valgerður Erlings. Þá mun Gránukvartettinn taka lagið og Jólasveit Rögga.
„Og ekki má gleyma honum Rögnvaldi Valbergssyni sem hefur útsett þetta allt saman og heldur utan um hópinn af sinni alkunnu snilld. Valgerður Erlingsdóttir mun svo leiða okkur inn í jólin með jólasögum og jólaguðspjalli og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Hulda og nefnir að að auki verði alveg sérstakir gestir, Elva Björk, mamma tvíburanna; Guðbrandur eða Gubbi, pabbi Eysteins og Emelíönu, sem einnig mun koma fram.
„Þau voru fengin inn af því þau tengjast öll söngfuglum kvöldsins og því fannst okkur skemmtileg pæling að hafa smá fjölskylduþema. Það verða því fjölskyldudúettar og tríó í alls kyns myndum, gaman að því. Og svo má ekki gleyma leynigestum kvöldsins – hverjir skyldu það nú vera? Annar er ungur og mjög efnilegur – hinn er landsþekktur,“ upplýsir Hulda.
Hún segir lögin sem eru á dagskránni allt lög sem allir ættu að þekkja og kunna og nefnir m.a. Yfir fannhvíta jörð, Helga nótt, Jólin allstaðar, Hin fyrstu jól, og svo mætti lengi telja.
„Áheyrendur mega búast við ljúfri og notalegri kvöldstund með frábæru skagfirsku tónlistarfólki. Hvetjum bara alla til þess að mæta og eiga með okkur ljúfa kvöldstund í Gránu, gleyma jólastressinu og njóta þess að vera til,“ segir Hulda sem hvetur áhugasama til að hafa hraðann á þar sem örfáir miðar eru eftir – svo miði er ennþá möguleiki í síma 8660114.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.