Jólablað Feykis 2020 komið út
Í dag er útgáfudagur Jólablaðs Feykis og í dag og næstu daga ættu áskrifendur og allir íbúar á Norðurlandi vestra að fá hressilegt blað inn um bréfalúguna. JólaFeykir er 40 síður að þessu sinni, stútfullt af fjölbreyttu efni og auglýsingum. Það er nú þegar komið á netið þannig að þeir sem ekki geta setið á sér geta stolist í það strax.
Samkvæmt óskráðum reglum er kökuþáttur í miðopnu og þar kennir fjölbreyttra kaka hjá dömunum í Kvenfélaginu Geirmundi. Feðginin Davíð Már og Rakel Sif eru í viðtali, spjallað er við Guðjón Ebba og Liyu Yirga hjá Teni á Blönduósi og Hvammstangabúinn Najeb Alhaj svarar Feyki. Anna Kata segir okkur frá degi í lífi útfararstjóra í Englandi, Sölvi Sveins segir frá dögum í París og Gerður Kristný svarar bók-haldinu. Nokkrir gæludýraeigendur kynna okkur fyrir vinum sínum, leikskólabörn í Ársölum segja lesendum sína skoðun á jólunum og að sjálfsöðgu er hin ómissandi jólamyndagáta á sínum stað.
Það eru engin jól án bóka. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir frá bók sinni um Jón Arason biskup á Hólum, Rakel Hinriksdóttir gaf nýverið út myndskreytta ljóðabók og ofurkokkurinn Þráinn Vigfússon er með matreiðslubók.
Vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi í JólaFeyki. Góðar stundir!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.