Jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar þokast nær
feykir.is
Skagafjörður
02.04.2023
kl. 13.37
„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að fela Vegagerðinni að ljúka nauðsynlegum rannsóknum vegna gerðar vegganga fyrir þjóðveg milli Siglufjarðar og Fljóta, hanna slíkt mannvirki og leggja mat á kostnað við gerð þess. Ráðherra leggi skýrslu með niðurstöðum rannsókna og kostnaðarmati fyrir Alþingi fyrir árslok 2023.“ Svo segir í þingsályktunartillögu um veggöng milli Siglufjarðar og Fljóta sem lögð hefur verið fram á Alþingi en alls voru það átján þingmenn sem fluttu tillöguna.
Flutningsmenn tillögunnar eru þau Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Jakob Frímann Magnússon, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Bergþór Ólason, Haraldur Benediktsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Flutningsmenn vilja með tillögunni koma því til leiðar að forsendur fyrir veggöngum milli Siglufjarðar og Fljóta verði rannsakaðar frekar með það að markmiði að færa þessa nauðsynlegu samgöngubót nær framkvæmdastigi. Þar sem forathugun hefur þegar farið fram er talið raunhæft, og lagt til, að innviðaráðherra leggi skýrslu um málið fyrir Alþingi fyrir árslok 2023. Hér er um nauðsynlegt fyrsta skref að ræða en ekki endanlega lausn sem ekki fæst fyrr en komin eru ný göng úr Ólafsfirði til austurs eins og Vegagerðin er þegar byrjuð að skoða.“
Ástand vegarins á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði hefur um langan tíma verið óviðunandi fyrir íbúa svæðisins, aðra vegfarendur og atvinnulífið á svæðinu. Strákagöng eru barn síns tíma og vegurinn frá þeim og í Fljót frægur fyrir óstöðvandi jarðsig og hrun og setur beig að mörgum ökumanninum sem fer þessa leið og þá ekki hvað síst við erfiðar aðstæður.
- - - - -
Heimild: Fjallabyggð.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.