Jafntefli á Höfn í Hornafirði
Lið Tindastóls lék fyrsta leik sinn í 2. deildinni í knattspyrnu í dag en þá sóttu þeir lið Sindra heim, alla leið austur á Hornafjörð. Markalaust var í hálfleik en mörkin dúkkuðu upp í síðari hálfleik og náðu þá heimamenn að jafna, 2-2, með marki á 95. mínútu. Jafntefli því staðreynd.
Í vikunni var kunngerð spá Fótbolta.net á gengi liðanna í 2. deild og samkvæmt henni er liði Tindastóls tólfta og neðsta sæti deildarinnar og því falli í 3. deild. Það er nú örugglega eitthvað sem Tindastólsmenn ætla ekki að láta gerast. Liði Sindra var hinsvegar spáð níunda sæti í sumar.
Sem fyrr segir var markalaust í fyrri hálfleik á Höfn en það var síðan Mate Paponja sem kom Sindra yfir á 59. mínútu. Stólarnir svöruðu vel fyrir sig því tíu mínútum síðar jafnaði Ragnar Þór Gunnarsson muninn og hann bætti síðan við öðru marki á 75. mínútu og kom Stólunum yfir, 1-2. Hornfirðingar náðu síðan að jafna á 95. mínútu og aftur var það Mate Paponja sem skoraði.
Stólarnir voru aðeins með 13 menn á leikskýrslu í dag.
Aftureldingu og Vestra var spáð efstu sætum 2. deildar en Mosfellingar fengu engu að síðar rassskell á Húsavík í dag þar sem heimamenn sigruðu 5-1. Magna Grenivík, Njarðvík og Hugin Seyðisfirði er sömuleiðis spáð góðu gengi. Næsti leikur Stólanna er næstkomandi laugardag en þá mæta þeir Fjarðabyggð í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.