Íslenskur vinnumarkaður og afnám frítekjumarks
Það er staðreynd að íslenskur vinnumarkaður tekur breytingum í samræmi við framþróun þjóðfélagsins. Ekki bara að störfin breytist heldur tekur samsetning vinnuaflsins breytingum. Þar kemur til menntun, aldur, þjóðerni og bætt heilsa. Heilbrigiðsvísindum fleygir fram og fólk verður eldra og lifir lengur við betri heilsu.
Fólk sem er á miðjum aldri getur gert ráð fyrir að eiga ágæt ár vel fram yfir 90 ára aldurinn og þeir sem eru á grunnskólaaldri núna að komast yfir 100 ára. Það er því eðlilegt að starfslok fólks á vinnumarkaði breytist. Geta einstaklinga er mjög misjöfn og þeir sem nú eru á aldrinum 65-70 ára eru margir hverjir alls ekki tilbúnir að hætta að vinna, jafnvel nýkomnir úr námi og eða hafa fulla starfsgetu ennþá. Það er því erfitt að vera gert að hætta að vinna og fara á eftirlaun sem ná ekki einu sinni lámarkslaunum vinnumarkaðins. Ef aðrar tekjur koma til , hvort sem fólk heldur áfram að vinna eða þiggja úr lífeyrissjóði skreðast laun vegna frítekjumarks af atvinnutekjum.
Fylgjumst með tímanum
Atvinnuþátttaka er nú mest á milli 25 -55 ára, þetta kemur til með að breytast hratt á næstu áratugum og þetta bil færist lengra fram á ævina í takt við símenntun og betra heilsufar. Eins og staðan er í dag er vinnumarkaðurinn tilbúinn að taka við því, atvinnuleysi er lítið og á mörgum sviðum vantar fólk í störf.
Það er ávinningur samfélagsins alls að skapa svigrúm til að þeir sem geta unnið fái tækifæri til þess. Afnám frítekjumarks af atvinnutekjum eldri borgara er því eðlileg breyting til að mæta breyttum vinnumarkaði. Getum við ekki verið sammála um það?
Halla Signý Kristjánsdóttir skipar 2. sæti Framsóknarflokksins í NV kjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.