Íslensk kjötsúpa?

Um nýliðna helgi fögnuðum við Kjötsúpudeginum hér á landi, en hefð er komin fyrir því að bjóða gestum og gangandi upp á íslenska kjötsúpu í höfuðborginni á þeim degi. Það er gert til þess að halda á lofti merkjum íslensks landbúnaðar, íslenskrar framleiðslu og íslenskrar menningar.

Á Akureyri í gamla daga var til siðs hjá börnum og unglingum að „teika“ bíla þegar hálka var á götum bæjarins. Það var oftast gert til skemmtunar, en stundum til að flýta för í skólann eða annað. Athæfið var auðvitað hættulegt, en gerendur á ungum aldri kunna ekki alltaf fótum sínum forráð.

Kemur þá að tilefni þessara skrifa. Þegar stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða eru farin að villa neytendum sýn með því að „teika“ markaðssetningu á afurðum íslensks landbúnaðar er rétt að staldra við og skoða stöðuna.

Samkvæmt merkingareglugerð matvæla er ekki skylda að tilgreina uppruna innihaldsefna í „unnum matvælum“, en undir unnin matvæli er hægt að flokka allt sem búið er að skvetta á dass af kryddi eða það sem unnið hefur verið meira.

Margir réttir eru boðnir í verslunum hérlendis þar sem einskis er getið um uppruna neins af innihaldsefnum þeirra. Merkingar eru mjög oft alfarið á íslensku og bera oftlega engin einkenni þess að vera innflutt vara. Þó er það svo að sumir þessara rétta og ýmissa annarra matvara eru innflutt og á engan hátt íslensk framleiðsla og hvað þá úr íslenskum hráefnum.

Stórfyrirtækið Hagar sem eiga og reka Bónus bjóða nú upp á „Íslenska kjötsúpu“ í verslunum sínum og hafa reyndar gert um nokkurt skeið. Auglýsing í Morgunblaði dagsins frá fyrirtækinu skerpir svo um munar á því að súpan sé „íslensk“.

En hvað þarf að prýða „íslenska“ kjötsúpu að mati neytenda til að hún standi undir nafni? Það skyldi þó ekki vera að neytendur telji að lágmarkið sé að í súpunni sé raunverulega íslenskt lambakjöt? Jafnvel líka að í henni séu önnur íslensk innihaldsefni, s.s. grænmeti, vatn og fleira?

Á umbúðum þessarar „Íslensku kjötsúpu“ frá Bónus er í engu getið um uppruna nokkurs af innihaldefnum. Það bendir eindregið til þess að alls ekki séu íslensk innihaldsefni í vörunni.

Það að vara sé að hluta til eða öllu leyti framleidd hérlendis veitir fyrirtækinu að mínu mati ekki siðferðislegan rétt til að merkja hana sem „Íslenska kjötsúpu“. Slíkt er til þess fallið að blekkja neytendur og láta þá halda að innihaldsefnin séu íslensk.

Svo í lokin má nefna að slíkar blekkingar eru stundaðar við sölu á ýmsum öðrum innfluttum vörum. Til að nefna eitt dæmi er orðið allnokkuð um að flutt séu til landsins tilbúin eða hálfbökuð brauð. Brauðin eru svo seld í verslunum undir merkjum stórra þekktra bakaría hérlendis, en merkingu um framleiðanda er hvergi að finna, heldur er hið stóra íslenska bakarí titlað sem „Ábyrgðaraðili“. Hvað er hægt að ganga langt í að blekkja neytendur? Allavega virðast alltaf finnast til þess nýjar leiðir.

Högni Elfar Gylfason
Sauðfjárbóndi og áhugamaður um ábyrga stjórnmálaumræðu og landbúnaðarmál

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir