Ísak Óli varði Íslandsmeistaratitil sinn í fjölþrautum

Ísak Óli Traustason, Íslandsmeistari í fjölþraut. Mynd: Frí.is.
Ísak Óli Traustason, Íslandsmeistari í fjölþraut. Mynd: Frí.is.

Um helgina fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum í Kaplakrika í Hafnarfirði þar sem 36 keppendur skráðu sig til leiks frá 14 félögum. Ísak Óli Traustason úr UMSS kom sá og sigraði enn á ný er hann varð Íslandsmeistari í sjöþraut karla. Ísak Óli hlaut 4333 stig í keppninni sem dugði til sigurs en athygli vekur að hann gerði allt ógilt í langstökki og hlaut því ekki stig fyrir það. 

Íslandmetið á Jón Arnar Magnússon, 6293 stig, sem keppti þá fyrir UMSS sett árið 1999.

Beðið var með eftirvæntingu eftir einvígi milli þeirra Ísaks Óla og Dags Fannars Einarssonar (ÍR) í sjöþrautinni en þeir tveir voru einir skráðir til leiks. Á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands kemur fram að Dagur Fannar hafi orðið Íslandsmeistari í sjöþraut í flokki 18-19 ára í fyrra og hlaut þá 4777 stig. Hann á best 4239 í sjöþraut karla frá árinu 2019 og er þetta hans fyrsta sjöþraut í karlaflokki á Íslandsmeistaramóti. Hann er nú þegar kominn með lágmark á NM í þraut sem fram fer í Seinäjoki, Finnlandi í byrjun sumars. Dagur Fannar náði sér hins vegar ekki á strik um helgina og hlaut 2715 stig.

Þórdís Eva Steinsdóttir (FH) varð Íslandsmeistari í kvennaflokki en var eina konan skráð til leiks en hún hlaut 3708 stig. Húnvetningurinn Helga Margrét Þorsteinsdóttir á Íslandsmetið, sett árið 2012 er hún fékk 4298 stig.

Sjá nánar á Fri.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir