ÍR-ingar seigir á endasprettinum
Fyrsti leikur karlaliðs Tindastóls í Dominos-deildinni fór fram í gær en ríflega 200 áhorfendur mættu galvaskir í Síkið og fengu hörkuleik þó úrslitin hafi verið fæstum að skapi. Jaka Brodnik var fjarri góðu gamni sökum meiðsla í liði Tindastóls og munaði um minna en það var þó helst skotnýtingin sem kom niður á Stólunum. Þannig skoraði Sigvaldi Eggerts í liði gestanna fleiri 3ja stiga körfur en allt lið Tindastóls til samans en kappinn setti fimm þrista og var sennilega þessi x-factor sem stundum þarf til að vinna leiki. Leikurinn var spennandi fram á síðustu sekúndu en Breiðhyltingarnir höfðu betur, lokatölur 83-87.
Lið Tindastóls spilaði vel í fyrsta leikhluta og hraðinn mikill. Colin Pryor setti þrist fyrir lið ÍR um miðjan leikhlutann, staðan 10-9, en Axel svaraði að bragði og í kjölfarið kom flottur kafli Tindastóls sem náðu tíu stiga forystu. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 20-11 fyrir Tindastól en gestirnir snéru dæminu við í öðrum leikhluta. Danero Thomas kom liði ÍR yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar rúmar þrjár mínútur voru til leikhlés og gestirnir voru feti framar fram að hléi og leiddu þá 39-41.
Lið ÍR náði fimm stiga forskoti snemma í síðari hálfleik, 41-46, en þá náðu Stólarnir frábærum 14-1 kafla og snéru taflinu sér í hag, staðan 55-47. Þetta var ekki síst fyrir gott framlag frá Shaen Glover og Antanas Udras sem báðir áttu fínan leik fyrir heimamenn. ÍR-ingar eru ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát og þeirra lið hefur á að skipa öflugum hópi leikmanna. Þeir náðu að klóra í bakkann áður en leikhlutinn var úti og staðan 66-63 fyrir lokaátökin.
Shawn Glover gerði fyrstu körfur fjórða leikhluta og heimamenn með sjö stiga forskot, 70-63, en enn og aftur klóruðu Breiðhyltingarnir sig inn í leikinn og körfur frá Evan Singleterry minnkuðu muninn. Þristur frá Sigvalda kom ÍR síðan yfir, 72-73, og eftir það gáfu gestirnir forystuna aldrei eftir. Stólarnir náðu reyndar að jafna, 75-75 en þristur frá Danero kom liði ÍR í bílstjórasætið og voru gestirnir ólseigir. Glover minnkaði muninn í eitt stig, 79-80, þegar tvær mínútur voru eftir en Sigvaldi dúkkaði upp með þrist og það sem eftir lifði munaði 2-4 stigum á liðunum. Stólarnir áttu séns í blálokin, Tomsick stal boltanum og minnkaði muninn í tvö stig, 83-85, og síðan unnu heimamenn boltann þegar rúmar fimm sekúndur voru eftir, Pétur óð upp hægri kantinn og sendi síðan þversendingu á Tomsick sem missti af boltanum – kannski farinn að horfa á körfuna áður en hann var kominn með boltann.
Tomsick hefur nú hingað til ekki verið í vandræðum með að skora í Síkinu en í gær gekk ekki sem skildi þó hann skilaði 16 stigum. Kappinn setti aðeins tvö af 14 3ja stiga skotum sínum niður í leiknum en sennilega hefðu fáir veðjað á móti honum á lokasekúndunum í gærkvöldi. En boltinn fór út af og lið ÍR gulltryggði sigurinn á lokasekúndunni af vítalínunni.
Sem fyrr segir áttu Glover og Udras fínan leik í gærkvöldi en Glover gerði 32 stig og tók sex fráköst og Udras gerði 18 stig og tók 13 fráköst. Stólarnir hirtu 50 fráköst í gær en gestirnir 37 og hefði það átt að skila Stólunum meiru. Það voru 3ja stiga skotin sem klikkuðu en lið Tindastóls setti niður fjóra þrista í 28 tilraunum. Tomsick átti helming skotanna og ekki er að efa að hann á eftir að hitta betur í flestum leikjum tímabilsins. Eins og stundum áður á haustin var framlag heimamanna í liði Tindastóls í hlédrægari kantinum og hefði þurft að vera mun meira, sérstaklega í ljósi þess að Jaka var ekki með. Pétur var aðeins með fimm stig líkt og Axel og Viðar en Tomsick, Glover og Udras tóku 61 af 83 skotum Tindastóls í leiknum.
Næstkomandi föstudag spilar lið Tindastóls við KR í DHL-höllinni og þar á eftir við lið KR á Hliðarenda í Bikarkeppni KKÍ.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.