Ingibjörg Huld ráðin í stöðu kennslustjóra
Fram kemur á heimasíðu Háskólans á Hólum að Ingibjörg Huld Þórðardóttir hafi verið ráðin í stöðu kennslustjóra við Háskólann á Hólum og að hún komi til starfa þann 1. ágúst nk. Inga Huld mun hafa faglega umsjón með kennslumálum skólans, svo sem þróun nýrra námsleiða, samræmingar á kennsluskrám og starfi kennslunefndar.
Inga Huld hefur starfað sem sérfræðingur í fræðsluþjónustu Skagfirðinga síðustu ár og verið hluti af þverfaglegu teymi fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Inga Huld gegndi einnig stöðu talmeinafræðings sveitarfélagsins. Hún er menntuð í kennslufræðum og starfaði sem kennari um árabil áður en hún fór í nám í talmeinafræði. Þar fyrir utan hefur Inga Huld starfað lengi í stjórnmálum og hefur því góða innsýn inn í opinbera stjórnsýslu.
„Við hjá Háskólanum á Hólum erum mjög ánægð með að hafa fengið Ingu Huld til liðs við okkur og bjóðum hana velkomna. Hún hefur víðtæka reynslu á sviði kennslumála en einnig á sviði opinberrar stjórnsýslu sem er ekki síður mikilvægt fyrir háskólann. Það eru spennandi tímar framundan í háskólanum sem snúa m.a. að þróun nýrra námsleiða og þá er mikilvægt að hafa gott og reynslumikið fólk með sér“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.
/IÖF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.