Í tilefni af „Allskonar fyrir aumingja“
Vegna greinar Þuríðar Hörpu Sigurðardóttir er mér ljúft og skylt að kynna stefnu okkar sjálfstæðismanna í Skagafirði í málefnum fatlaðra. Við Sjálfstæðismenn í Skagafirði viljum að þau mannréttindi fatlaðra til að lifa sambærilegu lífi og aðrir þegnar samfélagsins séu virt, og er stefna Sjálfstæðisflokksins að vera meðal þeirra sveitafélaga sem veitir fötluðu fólki besta þjónustu.
Við viljum leggja áherslu á að bæta aðgengi fatlaðra að stofnunum sveitarfélagsins og tryggja að í öllum framkvæmdum sveitafélagsins verði hugað að aðgengismálum fatlaðra, einnig viljum við beina því til fyrirtækja og stofnana að huga að aðgengi fatlaðs fólks, enda er oft á tíðum hugsunarleysi stór þáttur í að ekki eru fjarlægðar hindranir sem auðvelt er að laga.
Þjónusta við fatlaða er nú á hendi byggðasamlags sem að standa sveitafélögin á Norðurlandi vestra svo og Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð þetta byggðasamlag varð til við flutning málefna fatlaðra frá ríkinu. Flutningi málaflokksins hefðu mátt fylgja meiri fjármunir og er það verkefni sveitafélaganna að þrýsta þar á. Eigi að síður eru örugglega margir hlutir sem má bæta og er mikilvægt að það sé gert í samstarfi við samtök fatlaðra, Sjálfsbjörg. Væri gott að hafa vettvang til samráðs svo koma mætti í veg fyrir hluti eins og nú hafa komið upp, að fatlað fólk kemst ekki í sund í endurhæfingarlaug Heilbrigðisstofnunarinnar.
Varðandi búsetu þá eru fatlaðir fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir og því nauðsynlegt að tryggja úrræði sem henta sem best þörfum einstaklingsins. Við munum ekki beita okkur fyrir afsláttum af fasteignagjöldum enda teljum við að skattkerfi eigi að vera sem einfaldast og með sem fæstum undanþágum, hinsvegar teljum við að hægt sé að koma til móts við fólk eftir öðrum leiðum, t.d. einhverskonar húsnæðisstyrk.
NPA er enn sem komið er tilraunaverkefni en hugmyndafræði verkefnisins hugnast okkur vel enda teljum við að það sé réttur hvers og eins að fá það fólk til liðsinnis sem það þekkir og treystir og munum við styðja það að NPA verkefnið verði hluti af þjónustu við fatlaða.
Að lokum vil ég þakka Þuríði fyri góða áminningu til okkar sem bjóðum okkur fram til sveitastjórnar.
Gunnsteinn Björnsson
2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.