Í dagsins önn, önnur ljóðabók Sverris Magnússonar, komin út
Ljóðabók Sverris Magnússonar, Í dagsins önn, er komin út en þar er að finna kveðskap sem nær yfir 70 ára tímabil um ýmis dægurmál og því tengdu eða nánast allt sem flestir þurfa að glíma við í dagsins önn, eins og segir í formála Kristjáns Hjelm.
Þar kemur einnig fram að við útgáfu fyrri ljóðabókar Sverris, Dagmál, árið 2020 hafi það verið ákveðið að gefa út aðra bók á áttatíu ára afmæli Sverris, sem var þann 20. júní sl., vegna fjölda ljóða og kvæða sem höfundur átti í fórum sínum.
Þá vill svo skemmtilega til að þann 6. júní sl. voru nákvæmlega 60 ár frá því að Sverrir flutti frá Selfossi í Skagafjörð, 1962, þá rétt að verða tvítugur.
Oft er hægt að varða veg
vart ég um það hirði
Sextíu ár eru síðan ég
settist að í Skagafirði.
Sverrir segir að hann hafi verið tíu ára þegar hann gerði fyrstu vísuna sem hann muni eftir og síðan þá hafa þær margar orðið til enda liðin 70 ár. Hann segir vísur verða til á hverjum einasta degi. Hann reyni ekkert að semja, þær komi bara.
„Sumar vísurnar eru ljótar en aðrar fallegar alveg frá því ég var 10 ára og þangað til ég var kominn í áttrætt,“ segir Sverrir um efni bókarinnar en hann lætur pólitíkusana heyra það svolítið hressilega.
Í hylmingum er hvergi slen,
heykist núna flokkur.
Eitt er víst að Bjarni Ben
er bölvaður drullusokkur.
„Já ég stend við það! Ég hugsa líka að Vinstri græn hefðu líka viljað henda mér út af fundi fyrir kosningar,“ segir Sverrir og lætur aðra fjúka:
Ekki á mörgu virðist val
verð þó nú að segja
ef að Vötnin virkja skal
Vinstri grænir deyja.
Þær eru margar beittar en hann segist hafa ætlað að hæla einum stjórnmálamanni um daginn, Bjarna Jónssyni, fyrir að hann skyldi vera á móti því að taka Héraðsvötnin úr verndarflokki en ekki náð á honum. „Þeir svara manni aldrei þessir þingmenn. Ég þekkti föður hans vel og var ánægður með hann, segir Sverrir íbygginn.
Aðspurður um þriðju bókina segir Sverrir hana vel geta komið út ef hann fer ekki að drepast strax. „Þá gæti komið Kvöldhúm,“ segir hann og vísar til álitlegs bókatitils.
Þegar Sverrir er beðinn um að sitja fyrir á mynd segir hann það sjálfsagt enda geti hún ekki verið verri en fyrirmyndin og skellir fram vísu sem hann gerði er hann leit í spegil fyrir skömmu:
Þetta er að verða kynleg krísa
kvalir líða má.
Hárin mér á höfði rísa.
Helvíti eru þau fá!
Í dagsins önn er hægt að nálgast á Hársnyrtistofunni Capello, Aðalgötu 6 á Sauðárkróki, eða hjá Sverri sjálfum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.