Hvöt undirritar samning við samstarfsaðila
Stjórn knattspyrnudeildar Hvatar á Blönduósi hefur undanfarna mánuði unnið að gerð samstarfssamningu við Blönduósbæ og ýmis fyrirtæki á staðnum, í þeim tilgangi að styrkja starfsemi félagsins enn frekar.
Sagt er frá þessu á Húnahorninu og þar kemur einnig fram að nýverið hafi verið undirritaðir samningar við Arion banka og SAH-afurða, sem eru helstu styrktaraðilar Smábæjaleikanna á Blönduósi. Þá hafa einnig verið undirritaðir samningar við Ísgel og Tryggingamiðstöðina og til stendur að klára samninga við fleiri fyrirtæki á staðnum.
„Knattspyrnudeild Ungmennafélagsins Hvatar hefur undanfarin ár lagt mesta áherslu á uppbyggingarstarf í sínu starfi og hefur til þess öfluga einstaklinga við þjálfun og keppni og við stjórn félagsins. Þó er aldrei hægt að vinna þetta góða starf án þátttöku foreldra, aðstandenda, bæjarfélagsins, íbúa bæjarfélagsins, fyrirtækja í bænum og annarra fyrirtækja og velunnara,“ segir í frétt á Húnahorninu.
Þar kemur knattspyrnudeildin að framfæri miklum þökkum fyrir stuðninginn og er vonast til að hann nýtist vel við allt það góða starf sem unnið er á vegum UMF Hvatar á Blönduósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.