Hvorki frumleg né óumdeilanleg hugmynd að nýrri hugsun, segir Haraldur Benediktsson um nýja nálgun í vegagerð

Haraldur Benediktsson í pontu í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Mynd: Magnús Magnússon.
Haraldur Benediktsson í pontu í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Mynd: Magnús Magnússon.

Fundur um nýja nálgun í vegagerð var haldinn á Hvammstanga sl. þriðjudagskvöld en þar kynnti Haraldur Benediktsson, alþingismaður, tillögu um flýtingu framkvæmda vegagerðar um Vatnsnes. Auk erindis Haraldar, fjallaði Gísli Gíslason, nýsköpunarsetrinu Breið á Akranesi og fv. stjórnarformaður Spalar, um samstarf um samgönguframkvæmdir.

Magnús Magnússon, formaður byggðarráðs Húnaþings vestra opnaði fundinn og skrifar hann á Facebook-síðu sína að að baki erindum þeirra Haraldar og Gísla liggi mikil yfirlega og göfug vinna. „En fyrst og fremst fjallar þessi vinna um leiðir til að bæta lífsgæði fólks með betri samgöngum. Til þess eru refirnir skornir. Þessi hugmynd kviknaði eftir ferð okkar Haraldar um Vatnsnesið í vor þar sem við komum við á bæjum, hittum fólk og hlustuðum á sögu þess og sýn á samgöngumál og fleira. Að mínu viti eru heimsóknir til fólks ekki farnar til þess eins að haka í box og segja svo að þar hafi pólitíkus gert skyldu sína. Skyldan er að taka hugmyndir áfram og spegla í samtölum við trausta menn með þekkingu og reynslu og flokka hvað er raunhæft og hvað er óraunhæft. Það höfum við gert í þessu tilfelli og er það vel og þakkarvert hvað margir hafa gefið sér tíma í skoða hugmyndirnar, gaumgæfa og gefa álit,“ skrifar Magnús og segir að það sé gaman í pólitík þegar menn hugsa í lausnum og reyni að finna nýjar leiðir að sama marki. „Áfram veginn … vilji er allt sem þarf.“

Eftir vel heppnaðan fund sl. þriðjudag. F.v. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti Húnaþings vestra, Haraldur Benediktsson alþingismaður, Magnús Magnússon formaður byggðarráðs Húnaþings vestra, Gísli Gíslason fv. stjórnarformaður Spalar, Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra. Aðsend mynd.

Haraldur var ánægður með fundinn og segist sannfærður um að hér hafi verið opnuð umræða sem geti breytt miklu fyrir búsetuskilyrði víða um land. „Ég þakklátur sveitarstjórn Húnaþings vestra fyrir að taka nú boltann og ætla lengra með hugmyndina. Sannar enn og aftur að öll sveitarstjórn Húnaþings vestra er samhent og vinnur vel,“ skrifar hann á Facbook-síðu sína. Feykir sendi nokkrar spurningar á Harald og forvitnaðist um þessar forvitnilegu tillögur.

-Kjarni hugmyndarinnar er að færa heimamönnum stöðu til að taka málin í sínar hendur og bíða ekki eftir að röðin komi að þeim í að bæta búsetuskilyrði sín. Að byggja nútímalega vegi, þannig að öryggi vegfarenda verði meira og ekki síst að taka á móti vaxandi fjölda ferðamanna. Án þess að umferð þeirra valdi íbúum og bændum vandræðum. Eins og t.d. hefur verið um Vatnsnesveg. Við höfum gert sáttmála um samgönguframkvæmdur á höfuðborgarsvæðinu. Samþykkt lög um Samvinnuframkvæmdir í vegagerð. En allur fókus þessara aðgerða er að horfa til stofnvega. Ég vil opna leið sambærilegrar nálgunar fyrir malarvegi í sveitum.

Þú segir að þarna séu umdeilanlegar hugmyndir á ferðinni. Geturðu skýrt það nánar?
-Ég hef leyft mér að segja að tillagan sé hvorki frumleg eða óumdeilanleg. Hugmyndin er umdeilanleg þar sem gert er ráð fyrir veggjöldum. Nú vil ég minna á að bæði í höfuðborgarsáttmálanum og í Samvinnuframkvæmdum í vegagerð eru veggjöld. Það er bratt að segja við íbúa sveitanna: „Já, ef þú villt laga veginn þá þarftu að borga“. En mitt viðhorf er líka að veggjald, sem alltaf á að vera lægst fyrir íbúa á viðkomandi svæði, er ekki þungur skattur á móti sliti á bílum og öðrum áhrifum af bættum samgöngum.

En ég er ekki að sleppa ríkinu við að taka þátt í þeirri vegagerð. Ég vil að heimamenn geti stofnað samgöngufélag um einstakar framkvæmdir. Hlutafélög sem fái að byggja veg og innheimta hófleg veggjöld fyrir notkun. Samgöngufélagið geri samninga við ríkið/Vegagerðina um að hluti fjármuna eða allt framlagið af samgönguáætlun falli til félagsins á tíma sem komið var að viðkomandi framkvæmd átti að fara af stað. Tillagan er því ekki í eðli sínu um aukin ríkisútgjöld eða raskar þegar samþykktri framkvæmdaáætlun.

Þannig geti félagið farið strax í framkvæmdir en ríkið komið með sitt framlag á þeim tíma sem búið er að áætla. Veggjöldin eru því gjald til að flýta framkvæmd. Samningurinn verði þá grunnur að fjárhagsstoð félagsins ásamt veggjöldum. En ég vil gera meira en það. Hugmyndin gengur út á að byggja jafnvel líka áningastaði ferðamanna á viðkomandi svæði. Gera veg sem er með nútímanlegum lausnum fyrir stöðugt tæknilegri bíla. Að framkvæmdin sé loftslagsaðgerð í eðli sínu – hafi t.d. aðstöðu fyrir nýorkubíla. Betri vegur með slitlagi þýðir 20% minni losun umferðar.

Takist vel til, að hægt sé að vega saman hóflegt veggjald af umferð, auka aðdráttarafl svæðisins og að lækka framlög af samgönguáætlun til viðkomandi framkvæmdar. Þá fjármuni sem sparast nýtum við til að byggja fyrr og hraðar upp vegi sem hafa ekki jafn þunga umferð og þeir vegir sem hafa undanfarin ár verið vinsælir ferðamannavegir.

Ég vil leggja frumkvæðið í hendur heimamanna. Tek skýrt fram að ég hef engar hugmyndir um að sveitafélög fari að leggja fram annað framlag en að vera samnefnari heimamanna. Ekki að það borgi framkvæmdina. Mín reynsla af ljósleiðarverkefninu, sem tókst og við höfum náð þar frábærum áfanga, er að heimamenn eru bestir í að skilgreina þarfir og koma með góðar hugmyndir að lausnum. Það var ekki miðlægt og miðstýrt verkefni – það var í höndum heimamanna. Það var lykillinn af árangri.

Hvað þarf til að hugmyndin fái framgang í stjórnkerfinu?
-Til að hugmyndin fái framgang í stjórnkerfinu hyggst ég flytja sérstakt þingmannafrumvarp. En ég vil minna á að þegar er búið að opna dyr stjórnkerfisins með höfuðborgarsáttmálanum og samvinnuverkefnum. Innviðaráðherra hefur boðað frumvarp um samgönguframkvæmdir til viðbótar þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar. Ég er að prjóna við hugmyndir innviðaráðherra og áherslur ríkisstjórnar og vonast til að þingið taki málið mitt og felli saman við aðrar lagabreytingar. En auðvitað verður að vera þingvilji til þess og því ræður í raun hvernig umræða um þessa hugmynd þróast og ekki síst hver er vilji kjósenda.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna m.a. að horfa til hvernig við byggjum undir aukna verðmætasköpun, aukum hagsæld. Ég horfi í þessari hugmynd til þess að fara í fjárfestingar á svæðum sem eru „efnahagslega köld svæði“. Svæði eins og Norðurland vestra þarf innspýtingu. Það mun ekki verða þensluhvetjandi aðgerð, fyrir allt samfélagið, að ráðast í fjárfestingu í vegum á því svæði. Eins og t.d. tugmilljarða framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu.

Slík fjárfesting á Norðurlandi væri öflug innspýting og löngu tímabær. Með þessari nálgun erum við að vinna gegn þeirri þróun að stöðugt færri búi utan Hvítár í vestri og Hvítár í austri. Þessi nálgun er svar við hvernig við ætlum að dreifa um landið fjórum milljónum ferðamanna, sem mögulega verða hér eftir tíu ár. Þetta byggir undir viðspyrnu og framtíðarhagvöxt í öllu landinu. Hvernig við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum og gerum landið allt að eftirsóknarverðum búsetukosti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir