Hvítserkur og Glaumbær eru mest sóttu ferðamannastaðirnir á Norðurlandi vestra
Húnahornið lagðist yfir frétt Morgunblaðinu þar sem var fjallað um aðsókn á vinsæla ferðamannastaði á Íslandi. Hvítserkur er sennilega eitt frægasta kennileiti svæðisins ásamt Drangey á Skagafirði en það er heldur einfaldara að heimsækja Hvítserk. Það sem vekur athygli er gríðarleg aukning á heimsóknum ferðamanna að Hvítserk. Metaðsókn var í fyrra frá því að mælingar hófust árið 2021 en árið 2023 heimsóttu tæplega 82 þúsund manns staðinn en í ár er talan komin í ríflega 124 þúsund heimsóknir og árið langt því frá liðið.
Glaumbær í Skagafirði er næst eftirsóttasti ferðamannastaður Norðurlands vestra með ríflega 48 þúsund gesti sem er töluverð fækkun frá í fyrra þegar 61.462 gestir heimsóttu safnið. Ólíklegt er að það náist að jafna þá tölu þar sem helsti ferðamannatíminn er nú liðinn og safnið í nokkurs konar dvala yfir veturinn. Í frétt Feykis í síðustu viku sagði Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri árið í fyrra hafa sprengt alla skala og þá hefði fjöldinn hreinlega verið of mikill með tilliti til innviða.
Mælaborð Ferðamálastofu mælir heimsóknir á fimm ferðamannastaði á Norðurlandi vestra; Glaumbæ, Hrútey í Blöndu, Hvítserk, Kálfshamarsvík og Þrístapa. Fyrst nú í apríl í ár hófust mælingar við Þrístapa og þar nær ferðamannafjöldi rétt rúmlega 11 þúsund. Gestafjöldi á ári að Kálfshamarsvík og í Hrútey er tæplega 10 þúsund á ári.
Ef einhver rekur augun í að tölur Húnahornsins og Feykis eru ekki alveg þær sömu þá er skýringin einfaldlega sú að tölurnar uppfærast reglulega á mælaborði Ferðamálastofu. Hægt er að fylgjast með hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.