Hvítabjörninn á Þverárfjalli yfir tvítugt

Lokið er á Tilraunastöðinni á Keldum fyrstu athugunum á hvítabjörnunum sem syntu til landsins á Skaga í júní sl. Athuganirnar eru gerðar fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur það hlutverk samkvæmt lögum að athuga dýrin og ráðstafa þeim.


Karl Skírnisson, dýrafræðingur, útbjó þunnsneiðar af tönnum dýranna til að telja í þeim árhringi og ráða í lífssögu einstaklinganna út frá línum sem myndast utan á rætur tannanna þegar dýrin eldast. Bæði dýrin voru mun eldri en fyrst var talið.
Björninn sem felldur var á Þverárfjalli var rígfullorðinn, kominn á 22. aldursár. Hann var því kominn í hóp allra elstu hvítabjarna í stofninum sem ekki verða eldri en 20-25 ára. Breið vetrarlína myndaðist í tannræturnar árið sem vanið var undan og húnninn þurfti að fara að bjarga sér án forsjár móðurinnar (veturinn 1990). Sæði var í eistnalyppum þegar björninn var felldur þannig að hann var ennþá frjór. Fengitíðin í stofninum er í apríl og maí og var því nýliðin þegar dýrið synti til lands.
Birnan, sem felld var skömmu síðar við Hraun, var einnig komin af léttasta skeiði, annað hvort 12 eða 13 ára. Tvöfaldar vetrarlínur myndast í tannrætur birnanna árin sem þær leggjast í híði og eignast afkvæmi. Skagabirnan er talin hafa átt afkvæmi 3 sinnum og alltaf náð að ala húna sína upp (tekur þrjú ár) þar sem tvær vetrarlínur sáust milli tímgunaráranna. Raunar benda ystu árhringirnir í tönnunum til þess að húnn eða húnar úr síðasta gotinu hafi orðið sjálfstæðir nokkrum mánuðum áður en birnan lagði í sundferðina til Íslands. Birnan var örmagna og að dauða komin þegar hún náði landi við Hraun á Skaga. Hún hafði ekki nærst þann rúma sólarhring sem hún dvaldi á landi, þrátt fyrir gnótt eggja í æðarvarpinu, þar sem hún hélt til, á þessum tíma.
Einungis björninn reyndist vera smitaður af tríkínum, þráðormi sem býr um sig sem lirfa í vöðvum og smitast milli spendýra með hráu kjöti úr smituðum dýrum. Birnan var ósýkt. Tríkínur geta lifað í mönnum og valda í þeim kvalarfullum sjúkdómi. Sníkjudýrið er ekki á Íslandi og nýtur landið sérstöðu hvað það varðar.
Báðir birnirnir voru óvenju smávaxnir og með minnstu dýrum sem mæld hafa verið úr Austur-Grænlandsstofninum. Danir hafa rannsakað birni úr þessum stofni um árabil og veitt okkur ýmsar verðmætar upplýsingar. Fengu dönsku vísindamennirnir raunar fjölda sýna úr dýrunum sem hingað syntu og hafa þeir þegar hafist handa við rannsóknir sínar. Meira um það síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir