Hvar var lið Tindastóls í síðari hálfleik?

Jónas Aron og Halldór Broddi fagna marki þess fyrrnefnda. MYND: ÓAB
Jónas Aron og Halldór Broddi fagna marki þess fyrrnefnda. MYND: ÓAB

Í hádeginu í dag mættust Tindastóll og lið KFS úr Eyjum við frábærar aðstæður á Króknum. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur báðum liðum í botnbaráttu 3. deildar en með sigri hefðu Stólarnir náðu að slíta sig aðeins frá neðstu liðum en næði KFS, sem vermdi botnsætið fyrir leikinn, í stigin þrjú breyttist slagurinn á botninum í vígvöll. Staða Stólanna var vænleg í hálfleik en heimamenn sýndu flestar sínar verstu hliðar í seinni hálfleik og töpuðu að lokum 1-2.

Stólarnir fóru vel af stað í leiknum og fengu nokkur dauðafæri á upphafskaflanum en Víðir Gunnarsson í markinu varði með tilþrifum. Leikurinn var jafn úti á vellinum og lið KFS skipað ágætum ungum og sprækum leikmönnum. Bæði lið fengu ágæt færi eftir þetta en það var loks á 35. mínútu sem Jónas Aron, sem var sprækur á vinstri kantinum, náði loks að koma Víði í marki KFS á óvart með hnitmiðuðu skoti í nærhornið. Nokkru síðar vildu gestirnir, sem voru farnir að pirra sig talsvert á dómgæslunni, fá vítaspyrnu fyrir bakhrindingu í teignum og sættu sig alls ekki við að fá ekki vítið. Úr urðu um tveggja mínútna réttarhöld þar sem þjálfari gestanna uppskar bara gult spjald – dómarinn var ekki á þeim buxunum að skipta um skoðun. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Eyjapiltarnir hafa augljóslega farið yfir sín mál í hálfleik því þeir komu í allt öðrum gír til leiks í síðari hálfleik. Fyrstu fimm mínúturnar voru reyndar í eigu Stólanna sem áttu að bæta við marki á þeim kafla en síðan tók baráttugleði, gott spil og jákvæðni gestanna yfir. Hverri sendingu og hverri tæklingu var fylgt eftir með hrósi á meðan það fór að gæta pirrings hjá heimamönnum og hakan fór að síga niður í brjóst. Takturinn fór svo gjörsamlega úr varnarleiknum þegar trommarinn (Jóhann Daði) fékk hvíldina því í kjölfarið fylgdu tvö lagleg mörk frá KFS. Það fyrra skoraði Daníel Már Sigmarsson á 62. mínútu með hörkuskalla af stuttu færi eftir flotta fyrirgjöf og það síðara kom eftir gott spil fjórum mínútum síðar og það gerði Frans Sigurðsson. 

Stólarnir reyndu að rífa sig í gang, börðust af krafti en boltinn rúllaði ekki nógu vel og í þau skipti sem hætta skapaðist upp við mark gestanna voru Eyjapiltarnir hreinlega grimmari eða boltinn féll ekki nógu vel fyrir fætur Stólanna. Kannski voru heimamenn orðnir þreyttir eftir tvö löng ferðalög á einni viku, á Vopnafjörð og í Garðabæinn, en þetta var sannarlega þriðji leikur Stólanna á átta dögum. Hvað sem því líður þá var eins og KFS væri liðið sem var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Þá þurfa menn að skoða stöðuna í deildinni aðeins betur.

Nú er fyrri umferð 3. deildar að baki og uppskera Stólanna tíu stig í ellefu leikjum. Þrátt fyrir að lið Tindastóls sé að mestu byggt upp á heimastrákum er það því miður tilfinningin að það vanti leikgleðina í hópinn. Úrslitin í dag eru sannarlega vonbrigði því liðið hefur sýnt framfarir í síðustu leikjum. Síðari hálfleikurinn í dag reyndist hins vegar vera nokkur skref aftur á bak og dúndraði liðinu niður í botnfallið. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir