Hvammshlíðardagatal komið út - Þriðja dagatalið úr fjöllunum

Forsíða dagatals Karólínu í Hvammshlíð fyrir árið 2021. Aðsendar myndir.
Forsíða dagatals Karólínu í Hvammshlíð fyrir árið 2021. Aðsendar myndir.

Út er komið, þriðja árið í röð, dagatal Karólínu Elísabetardóttur í Hvammshlíð, þar sem dýrin á bænum fá að njóta sín á skemmtilegum ljósmyndum í bland við þjóðlegan fróðleik. Karólína segist hafa velt því mikið fyrir sér hvort hún ætti að halda áfram að gefa út dagatal en eftir nokkrar fyrirspurnir um mitt sumar varðandi „næsta dagatal“ ákvað hún að láta vaða. „Fróðleikur, sögur og skoðanir,“ er titill dagatalsins og innihaldið þar með að vissu leyti persónulegra, segir Karólína.

 

Auk upplýsinga og staðreynda birtir Karólína einnig nokkra pistlar þar sem hún segir skoðanir sína, m.a. um meintar tilviljanir, umdeildan lausagang búfjár og kindvænar rúningsaðferðir. Kaflarnir „Sauðalitur mánaðarins“ eru einnig nýjung og upplýsa lesendur, ekki einungis um svart, mógolsótt, svartbotnótt, flekkótt og margt fleira, heldur eru líka einn eða jafnvel fleiri fulltrúar litarins í Hvammshlíðarhjörðinni kynntir nánar.

„Eins og í fyrra fylgja áhugaverðar gamlar myndir sem henta efninu, jafnvel fleiri en 2020. En samt sem áður prýða dagatalið úrvals ljósmyndir úr hversdagslífi hundanna, kindanna og hrossanna,“ segir Karólína.

„Sem fyrr eru gömlu mánuðirnir, vetrar- og sumarvikur samkvæmt norræna tímatalinu, aukanætur og vetrarnætur ómissandi þáttur í nýju útgáfunni og allir helstu merkisdagar koma fram. Allur þessi fróðleikur, einnig úr eldri dagatölunum, ásamt gömlum íslenskum mælieiningum finnst í svokölluðum viðauka sem fylgir hverju eintaki.“

 

 

Dagatalið fæst í Skagfirðingabúð á Króknum, í Alþýðulist í Varmahlíð og hjá Líflandi á Blönduósi en fyrir brottflutta eru auk þess afhendingarstaðir í boði í Reykjavík, á Suðurlandi og á Egilsstöðum. Einnig er hægt að panta hjá Karólínu sjálfri í síma 865 8107 eða á Facebook. Stærð og gerð er líkt og í fyrra, 42 x 30 sm – eða jafnvel 42 x 60 sm ef dagatalið er hengt upp á efra blaðinu. Meira að segja verðið er eins og i fyrra, 3000 krónur," segir Karólína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir