Hvað á barnið að heita?
Mannanöfn er einn angi íslenskunnar sem reynir á þetta fallega tungumál, já og landann. Hver hefur ekki skoðun á nafngift frumburðar frænku nágrannans? Það má ekki heita of gamaldags nafni en heldur ekki of nýmóðins, og hvað sem þú gerir, ekki segja að þú sért að bíða eftir úrskurði mannanafnanefndar. Sameinumst nú á hinni heilögu nafnamiðju svo að allir geti sofið rótt og kvíði ekki næstu skírn.
Samkvæmt elsta íslenska manntalinu sem tekið var árið 1703, voru 338 kvenmannsnöfn og 387 karlmannsnöfn í notkun. Þá voru Íslendingar tæplega 50.000 talsins, en með fjölgun landsmanna fjölgaði nöfnunum sömuleiðis og hefur það haldist í hendur í gegnum tíðina. Guðrún og Jón hafa löngum verið í toppsætum yfir vinsælustu kven- og karlmannsnöfnin og eru í dag notuð af skynsemisfólki sem heldur lífi í gömlu, góðu nöfnunum. En óhefðbundnari nöfn, ný af nálinni, eru þau sem að halda nafnaþróuninni gangandi. Mannanafnasiðir breytast í takti við tímann, og nöfn sem okkur kann að þykja hin venjulegustu í dag, voru framandi nöfn á einhverjum tímapunkti. En við aðlögumst, venjumst og höldum áfram, þar til næsta nýstárlega nafn lítur dagsins ljós og ferlið endurtekur sig.
Nýverið birtist frétt um að Stofnun Árna Magnússonar myndi bæta kynhlutlausa persónufornafninu hán við orðabækur sínar. Með viðurkenningu á þessum jaðarhópi er heimurinn smátt og smátt að rétta sig af, og enn frekar með samþykkt kynhlutlausu nafnanna Bryn og Eló. Er þetta dæmi um það hvernig mannanöfn þróast með samfélaginu og fara frá því að vera fagurfræðilegar vangaveltur, yfir í grunnmannréttindi.
Fyrir ykkur sem kann að blöskra á nýsamþykktum nöfnum og breyttum venjum, þið þurfið ekki að skilja, einungis virða. Auðvitað er ekki hægt að gera öllum til geðs, enda eru það væntingar sem seint verða uppfylltar. Fögnum heldur fjölbreytileikanum og sístækkandi nafnaflóru íslenskunnar.
Ég skora á Ármann Pétursson, bónda á Neðri- Torfustöðum að skrifa pistil í Feyki.
Áður birst í 31. tbl. Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.