Hús og híbýli á Hvammstanga: Húsaskrá 1898-1972 eftir Þórð Skúlason.

Í bókinni rekur Þórður Skúlason þróun byggðar á Hvammstanga frá 1898 til 1972. Þórður er gjörkunnugur byggð og mannlífi á þessum gamla verslunarstað, enda borinn þar og barnfæddur. Hann hefur víða leitað fanga, bæði í opinberum gögnum og óbirtum heimildum, en þó ekki síst með samtölum við eldri og yngri Hvammstangabúa.

Í bókinni er rakin saga um 180 húsa á Hvammstanga -húsa sem enn standa og einnig þeirra sem hafa horfið af sjónarsviðinu í tímans rás. Sagan er krydduð með kátlegum mannlýsingum og fróðlegum lýsingum á mannlífi fyrri tíðar á Hvammstanga. Bókin er prýdd fjölda ljósmynda af húsum og umhverfi, bæði gömlum og nýjum.

Um höfund:
Þórður Skúlason er fæddur á Hvammstanga árið 1943. Hann bjó og starfaði á Hvammstanga í 47 ár, sat í hreppsnefnd Hvammstangahrepps og gegndi starfi sveitarstjóra hreppsins í samtals 20 ár. Á búsetuárum sínum á Hvammstanga öðlaðist hann yfirgripsmikla og milliliðalausa þekkingu á sögu og þróun byggðar á Hvammstanga.

Þórður hefur ritað fjölmargar greinar í blöð og tímarit, fyrst og fremst um sveitarstjórnarmál, en einnig um söguleg efni sem tengjast Hvammstanga. Ýmislegt hefur hann ritað um sögu staðarins og héraðsins sem ekki hefur birst á prenti.

Árið 2013 kom út þýðing hans á skáldsögunni Heimsins besti bær eftir finnska rithöfundinn Arto Paasilinna.

Bókina er hægt að kaupa á heimasíðu Skriðu www.skridabokautgafa.is, í Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga og í Bardúsu á Hvammstanga.

Bókin er 287 bls. og prýdd fjölda mynda.
Hönnun: Magnús Karel Hannesson

 /Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir