Hús Bryndísar varð fyrir aurskriðu - Spilar að sjálfsögðu leikinn í dag

Bryndís Rut eftir leik með Tindastóli. Mynd: ÓAB.
Bryndís Rut eftir leik með Tindastóli. Mynd: ÓAB.

Eins og flestum er kunnugt féll aurskriða á tvö hús á Laugavegi í Varmahlíð og tók hluta úr veginum á Norðurbrún með sér. Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Tindastóls, býr í öðru húsinu sem varð fyrir skriðunni en var sem betur fer ekki heima þegar skriðan féll. Tindastóll tekur á móti liði Selfoss í Pepsi Max deilda kvenna á Sauðárkróki í dag og sagði Bryndís í samtali við Feyki að hún ætli að sjálfsögðu að spila þann leik og hvetur alla til að mæta á völlinn.

„Það féll aurskriða þarna á milli húsanna hérna sem hitti bæði húsin sem standa hlið við hlið, þar á meðal húsið okkar,“  segir Bryndís Rut en hún býr á Laugavegi 15 ásamt sambýlismanni sínum honum Alex Má Sigurbjörnssyni, bassaleikara Danssveitar Dósa og Hljómsveitar kvöldsins.

„Skriðan fór í rauninni á þá hlið þar sem við erum með þrjá glugga, tvö svefnherbergi og eldhús. Það sprakk ein rúða og það fór drulla inn í gestaherbergið. Ég er bara mjög fegin að það fór ekkert inn í svefnherbergi og mjög hissa á því að það slapp,“ segir Bryndís.

Hún veit ekki hversu mikið tjónið er en er rosa fegin að ekki hafi farið verr því við hliðina á þeim býr fjölskylda með börn sem leika sér oft í garðinum þar sem skriðan var sem mest. „Ég er bara mjög þakklát fyrir að það hafi ekki orðið nein slys á fólki.

Bryndís og Alex eiga tvo ketti, þá Sigfús og Elsu, og voru þeir heima þegar skriðan féll á húsið. „Heyrðu ég var alveg smá smeyk, það var bara hringt í mig og sagt að það hefði farið aurskriða á húsið mitt og kettirnir voru inni en þeir sluppu, voru bara mjög hræddir.“

Þegar blaðamaður spyr Bryndísi hvort hún ætli að spila leikinn í dag segir hún að ekkert annað komi til greina. „Já, ég ætla að spila hann, ég er bara klár, ég er með fullan fókus á þennan leik. Þetta er mikilvægur leikur, það er hörkulið að koma hingað og við ætlum ekki að taka á móti þeim með hálfum hug, það er bara þannig. Við ætlum að mæta þeim með krafti og sýna hvað í okkur býr.“

„Þetta er bara eitthvað sem er óviðráðanlegt það sem kom fyrir húsið mitt og ég ætla ekki að láta það hafa áhrif á fótboltann. Ég hef aldrei tekið það í tal að sleppa þessum leik, þetta er bara eitthvað sem maður stjórnar ekki, ég get hvort eð er ekki gert neitt í því nema að spila þennan leik og hafa gaman af því.“

Það er nóg af fólki búið að bjóða Bryndísi og Alex samastað og hafa þau því fullt af stöðum til að vera á. Þau dvelja nú hjá foreldrum Alex á Króknum.
„Við vitum í rauninni ekki hversu lengi við þurfum að vera annarsstaðar en við höfum alveg fullt af góðu fólki á bakvið okkur þannig við höfum minnstar áhyggjur af því,“ segir Bryndís.

Að lokum hefur Bryndís þetta að segja: „Allir að mæta á völlinn og styðja Tindastól áfram. Ég vil fá að heyra í fólki því þetta verður hörkuleikur, barátta og við þurfum allan þann stuðning sem er í boði.“

Tindastóll - Selfoss fer fram klukkan 18:00 í dag á gervigrasvellinum á Króknum.

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir