Húrra! Lið Kormáks/Hvatar tryggði sér sæti í 3. deild

Sigurreift lið Kormáks/Hvatar að leik loknum nú undir kvöld. MYND: LEE ANN
Sigurreift lið Kormáks/Hvatar að leik loknum nú undir kvöld. MYND: LEE ANN

Seinni leikirnir í undanúrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu fara fram í dag og fyrir stuttu lauk leik Kormáks/Hvatar og Hamars frá Hveragerði sem fram fór á Blönduósi. Eftir 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna þurftu heimamenn að sigra í dag eða gera 0-0 jafntefli. Markalaust var í leikhléi en sigurmark Húnvetninga kom snemma í síðari hálfleik.

Hart var barist á Blönduósi og dómari leiksins var duglegur að veifa gula spjaldinu. Það var Akil DeFreitas sem gerði mark Kormáks/Hvatar með bylmingsskoti á 56. mínútu. Það dró til tíðinda á 82. mínútu þegar Sigurði Bjarna Aadnegard fékk að líta sitt annað gula spjald og var því vikið af velli. Gestirnir úr Hveragerði náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og langþráður draumur leik- og stuðningsmanna Kormáks/Hvatar varð því loks að veruleika.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Vængir Júpiters og KH á Fjölnisvelli. Fyrri leikur liðanna endaði 1-1. Úrslitaleikurinn um sigur í 4. deild fer síðan fram næstkomandi laugardag en ekki hefur leikvangur enn verið valinn.

Lið Kormáks/Hvatar hefur spilað ágætan fótbolta í sumar og er vel að því komið að tryggja sér sæti í 3. deild. Til hamingju Kormákur/Hvöt!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir