Húnvetningar lutu í gras í uppgjöri toppliðanna

Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS
Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS

Toppliðin í D-riðli 4. deildar, Vængir Júpiters og Kormákur/Hvöt mættust á Fjölnisvelli í dag en liðin voru jöfn að stigum að loknum átta umferðum í riðlinum. Það var hart barist en eftir að tveir Húnvetningar litu rautt spjald fór svo á endanum að Vængirnir höfðu betur, unnu leikinn 3-2, og tróna nú einir á toppi riðilsins.

Vængir Júpiters, sem voru í 3. deild í fyrra, eru B-lið Fjölnis í Grafarvoginum og eini tapleikur þeirra í sumar var einmitt gegn liði Kormáks/Hvatar í hörkuleik sem fram fór á Sauðárkróksvelli en þann leik unnu Húnvetningar 4-2. Dagur Ingi Axelsson kom VJ yfir eftir fjórar mínútur í dag en George Razvan Chariton jafnaði metin á 12. mínútu og gerði þar með níunda mark sitt í sumar. Jose Moreno fékk að líta gula spjaldið á 19. mínútu og hann fékk sitt annað gula spjald á fyrstu mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleik. Gestirnir því einum færri allan síðari hálfleik eða alveg þar til þeir urðu tveimur færri.

Lið Kormáks/Hvatar hélt jöfn allt þar til fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá gerði Árni Steinn Sigursteinsson annað mark Vængjanna. Mínútu síðar fékk Ágúst Friðjónsson að líta rauða spjaldið og þetta nýttu heimamenn sér og bættu við þriðja marki sínu á 89. mínútu en þar var að verki Patrekur Viktor Jónsson. Sigurður Arnþórsson gerði sjálfsmark á fyrstu mínútu uppbótartíma og hleypti smá hasar í lokamínúturnar en ekki náðu liðsmenn Kormáks/Hvatar að jafna leikinn tveimur færri.

Þess má til gamans geta að lið Kormáks/Hvatar var með leynivopn á bekknum í dag en körfuboltakappinn úr Keflavík, Valur Orri Valsson, sonur Guðnýjar Friðriks og Valla Ingimundar, er genginn til liðs við Húnvetninga. Hann hefur áður smellt sér í takkaskóna og verið markheppinn í fótboltanum, rétt eins og pabbi hans var á síðustu öld. Valur Orri kom inn á þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en fann ekki netmöskvana í þetta skiptið.

Nú á eftir að spila fimm umferðir í D-riðlinum og er lið Kormáks/Hvatar í öðru sæti riðilsins. Toppbaráttan er hnífjöfn en leiða má líkum að því að Vængir Júpiters taki toppsætið í riðlinum. Baráttan stendur því á milli Húnvetninganna sem eru með 21 stig og síðan Hvíta riddarans og Léttis en bæði liðin eru með 19 stig. Það stefnir því í spennandi lokaumferðir en sæti í úrslitakeppninni er í húfi. Áfram Kormákur/Hvöt!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir