Húnvetningar lágu fyrir Léttum á Hertz-vellinm
Lið Kormáks Hvatar spilaði í gær sinn fyrsta leik í 4. deildinni í sumar en þá heimsóttu Húnvetningar lið Léttra í Breiðholtinu. Léttir er b-lið ÍR en þeir voru léttir á því í gær og lögðu gestina í leik sem endaði 3-2. Ekki byrjunin sem Ingvi Rafn þjálfari KH hafði óskað sér en það er nóg eftir af mótinu og tími til að hala inn stig.
Heimamenn fóru vel af stað og voru komnir yfir eftir fjórar mínútur með marki frá Davíð Má Stefánssyni. Kristján Jóhannesson bætti við marki eftir um hálftíma leik en fimm mínútum síðar opnaði Akil De Freitas markareikning sinn fyrir Kormák Hvöt. Staðan 2-1 í hléi en heimamenn komust á ný í tveggja marka forystu eftir klukkutíma leik en þá skoraði Guðmundur Sveinsson. Bouna Dieye minnkaði muninn á ný á 76. mínútu en ekki tókst gestunum að jafna og tap því staðreynd.
Það má reikna með hörkuleikjum í D-riðli 4. deildar en sterk lið eru í riðlinum. Má þar telja Hvítu riddarana, Vængi Júpiters og Samherja úr Eyjafirði. Næsti leikur Kormáks Hvatar verður á Blönduósvelli næstkomandi laugardag en þá mæta Vængir Júpíters í heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.