„Hundruðum músa gert að yfirgefa heimili sitt“

Linda Björk og Pall. MYNDIR AÐSENDAR
Linda Björk og Pall. MYNDIR AÐSENDAR

Karuna í Litlu-Gröf á Langholtinu í Skagafirði er fjölskyldurekið gistihús í eigu Páls Einarssonar og Lindu Bjarkar Jónsdóttur. „Við vorum áður búsettí Reykjavík en langaði að breyta til og fara í meiri rólegheit og sveitarómatík. Erum bæði alin upp í sveit, ég hér í Skagafirði og Páll í Vík í Mýrdal. Vorum búin að sjá Litlu-Gröf til sölu en vorum eitthvað að vandræðast með þetta en ákváðum svo bara að slá til og gengum frá kaupunum sumarið 2013. Þá bjó hún Guðlaug (Gulla)í gamla húsinu, sem við í dag köllum alltaf Gulluhús,“ segja þau þegar Feykir spyr hvernig það hafi komið til að þau eignuðust Litlu-Gröf.

„Við byrjuðum á að gera upp íbúðarhúsið okkar og útihúsin og Gulla var svona líka ánægð með uppbygginguna og hafði á orði að henni þætti vænt um ef við kæmum hennar húsi líka í góð not. Þegar Gulla lést 2017 þá fór Páll af stað með þá hugmynd að breyta húsnæðinu í gistihús þar sem okkur hugnaðist ekki að fara að leiga það út og fá nágranna í bak-garðinn,“ segir Linda Björk.

Hvenær opnuðuð þið gistihúsið og er allt klappað og klárt eins og þið sáuð það fyrir ykkur eða er alltaf verið að breyta og bæta? „Við vorum í raun ótrúlega fljót að koma Gulluhúsi í stand og fjósinu. Opnuðum 18. júlí 2018 og vissum ekkert út í hvað við vorum að fara eða við hverju við áttum að búast. Þá var gistingin í raun bara klár en salurinn, gamla hlaðan, var enn bara grunnur og fór í pásu vegna falls Wow Air og svo Covid. En við ákváðum svo í miðju Covid að það væri alveg eins gott að nota tímann og klára hlöðuna. Opnuðum hana í janúar 2022 og höfum verið að innrétta og koma henni í það horf sem við sjáum fyrir okkur. Eigum ennþá eftir að klára umhverfið í kring, koma upp sólpalli og snyrta lóðina. Svo er draumur að koma upp útsýniskúlu uppi á súrheys-turninum en útsýnið þaðan er óborganlegt. En það er bara eitthvað sem er mögulegt ef rekstraumhverfið á Íslandi lagast og gerir fólki kleift að framkvæma og standa í rekstri án þess að eiga alltaf á hættu að lánin margfaldist á nokkra ára fresti.“

Hvað var áður í húsunum og hvað þurfti að gera til að koma þeim í stand? „Gulluhús var byggt 1934 af Arngrími og Sigríði og bjó Gulla, dóttir þeirra í því til síðasta dags. Við þurftum að opna alla veggi og loft og moka út gömlum dagblöðum, taði og annars konar einangrun sem féll til á þeim tíma sem húsið var byggt. Færðum til hurðarop og breyttum stofunni á efri hæðinni til að fá fjögur her-bergi. Svo þurfti auðvitað að eldverja allt í drasl, allir veggir settir í gifs og eldvarnarhurðir alls staðar. Opnuðum svo húsið inn í „gamla“ bílskúrinn sem nú er móttakan. Gamla fjósið var að mestu rifið og hundr-uðum músa gert að yfirgefa heimilið sitt,“ segir Linda hress en í fjósinu eru nú fimm rúmgóð herbergi. „Hvert her-bergi er í raun eins og hvert bil var í fjósinu, endaherbergið er gamla mjólkurhúsið og svo er herbergi þar sem súrheys-turninn er. Við vildum alltaf byggja fjósið og hlöðuna upp í sama útliti og var áður, bara nútímalegri og í réttum hæðarhlutföllum.“

Hvað eru mörg herbergi hjá ykkur og hversu mörgum gestum getið þið tekið á móti? „Karuna er með tíu herbergi, í fjósinu eru fimm rúmgóð herbergi með sér baðherbergi og svo eru fimm kósý herbergi með tveimur sameiginlegum baðherbergjum í Gulluhúsi. Við erum með uppábúin rúm fyrir 27 gesti. Uppáhalds herbergið okkar er auðvitað herbergið í súrheysturninum. Gestum finnst gaman að vita að þeir sofi í gamalli heygeymslu. Jói Þórðar á þakkir skilið fyrir að hafa ekki rutt honum niður á sínum tíma og bent okkur á að nýta hann frekar áfram.“

Hversu langan tíma tók að gera upp og hvað var erfiðast? „Þetta er búið að vera erfitt ferli, tímafrekt og alger peningahýt. En það er skemmtilegt að sjá hvernig hægt og rólega eitthvað gamalt fær nýtt líf og tilgang. Það tók alveg á að innrétta og koma okkur saman um hvernig endanleg útkoma á að vera. Við sjáum sjálf um að stílesera herbergin og salinn.“

Eruð þið með einhverja afþreyingu fyrir gesti eða veitingar? „Við erum með heitan pott og sauna fyrir gesti og sjónvarp í hverju rými. En annars gerum við ráð fyrir að gestir geti fundið sér margt skemmtilegt að gera í firðinum og við reynum að benda þeim í réttar áttir. Á sumrin bjóðum við upp á léttan morgunverð en höfum ekki farið í það að selja kvöldmat.“

Linda segir að erlendir ferðamenn séu 90% þeirra gesta sem sækja Karuna heim. Það séu þó alltaf einhverjir Íslendingar sem slæðast inn en það er þá helst tengt íþóttamótum á Sauðárkróki og Laufskálaréttum.

Þegar þið eignuðust Litlu-Gröf var þá hugmyndin strax að opna gistihús, eruð þið til dæmis að gera eitthvað annað en að sjá um og reka gistihús? „Nei, það var ekki á teikniborðinu, við vorum bara að leita eftir því að hægja á okkur og komast í rólegra umhverfi.Við erum búin að vera fósturforeldrar síðan 2007 og okkur langaði frekar að vera út í sveit, með hunda og hesta.“

Er nóg að gera og er gaman að standa í svona rekstri? „Sumrin eru þéttsetinn og lítill frítími en öllu rólegra yfir vetrartímann. Þá getum við lokað og skellt okkur í smá sumarfrí, svona eins og flestir bændur. Gaman er kannski ekki orð sem ég mundi nota, þetta er gríðaleg vinna og binding. En það er gaman að gera eitthvað sem gefur af sér og sjá ávinning af öllu erfiðinu.“

Náið þið að kynnast gestunum? „Nei, í rauninni ekki, langflestir stoppa bara yfir nótt og vita minnst um hvað Skagafjörður hefur upp á að bjóða. Þeir keyra hringinn um Ísland og við erum fyrsta stopp frá Keflavík og næsta stopp er Mývatn. En þeir sem stoppa og vita eitthvað eru yfirleitt að fara á hestbak, fjallgöngur eða bátaferðir.“

Linda segir að þau fái yfirleitt jákvæð viðbrögð frá gestum. „Auðvitað eru alltaf einhverjir sem búast við fimm stjörnu þjónustu og kvarta yfir öllu. Sumir einstaklingar geta gert mann gráhærðan en á sama tíma er ekki annað hægt en að brosa þegar maður gengur inn í eldhúsið og það er fullt af froðu eftir að þeir settu uppþvottalög í uppþvottavélina eða brunakerfið af stað þegar þeir reyndu að hita vatn á eldavélinni með rafmagns-katlinum. En þetta eru algjörar undantekningar og langflestir gestanna eru gott fólk með sitt á hreinu sem gaman er að eiga samskipti við.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir