Hundadagar :: Leiðari Feykis

Jörundur hundadagakonungur. Mynd af Netinu.
Jörundur hundadagakonungur. Mynd af Netinu.

Hundadagar hófust í síðustu viku, þann 13. júlí, og standa til 23. ágúst nk. eða í sex vikur sléttar og marka tiltekið skeið sumars um heitasta tímann á norðurhveli jarðar. Margir telja nafnið tilkomið vegna Jörundar hundadagakonungs en það er reginmisskilningur. Hið rétta er að nafnið er komið frá Rómverjum, er sóttu hugmyndina til Forn-Grikkja sem settu sumarhitana í samband við stjörnuna Síríus, sem Íslendingar kölluðu hundastjörnuna og mun vera bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stóri-hundur sem um þetta leyti árs fór að sjást á morgunhimninum.

Eins og þekkt er hafa Íslendingar lengi tengt veðrabrigði við ákveðna daga og svo er einnig um Margrétarmessu, sem markar upphaf hundadaga 13. júlí. Veðrið á þeim degi á að segja til um veðurfar næstu sex vikna og jafnvel fram á höfuðdag, 29. ágúst og verður þá tíðarfarið svipað.

Gömul veðurvísa staðfestir þetta:

Ef á Margrétarmessu er dögg
mun það lítið bæta,
þá mun haustið hey og plögg
í húsum inni væta.

Nú er bara spurningin hvernig við túlkum spá sumarsins. Á Margrétarmessu var blíðviðri mikið og þurrt á Norðurlandi vestra, hiti nærri 20 stigum en daginn eftir var komin rigning og það heldur hressileg. Eins ljúft og það var að fá vætuna þá líst mér ekkert á ef restin af hundadögunum verður svipuð ef mið verður tekið af þeim degi. Þó ég sé ekki spámannlega vaxinn ætla ég samt að reyna. Mín spá er sú að meðaltal þriggja fyrstu dagana er vísbending um veðurfar hundadaga að höfuðdegi og má þá búast við fínu veðri, regni af og til og hita frá 12 til 16 gráða. Það ætti að sleppa!

Í mörgum heimildum má svo finna að veðurfar breytist gjarnan með höfuðdegi og helst að það batni. Mér finnst þetta síðasta gefa tilefni til að ætla að hundadagar hafi almennt þótt leiðinlegir fyrst tíðarfarið eigi að skána. „Bregður þá vanalega veðráttu og helzt þá hið sama í 20 daga og minnir á það í 40 daga eftir Egediusmessu (1. sept.), segir gömul veðurtrú.

Það er mín fjallgrimma vissa að eftir höfuðdag mun ýmislegt annað breytast, og alls ekki batna, þar sem stefnt er að því að kjósa til Alþingis þann 25. september, á réttardegi Laufskálaréttar. Margir flokkar hafa boðað þátttöku en samkvæmt skoðanakönnun sem unnin var samstarfi mbl.is, Morgunblaðsins og MMR, myndi núverandi ríkisstjórn falla ef gengið væri til kosninga nú. Segir í frétt mbl.is að fall stjórnarmeirihlutans megi þá helst rekja til þriðjungs fylgistaps Vinstri grænna sem mældust aðeins með 10,7% fylgi, sem þýðir sjö þingsæti. Hugsanlega þyrfti að mynda fimm flokka stjórn og allt eins gæti farið svo að átta flokka stjórn myndi þurfa til væri Sjálfstæðisflokkur útilokaður frá stjórnarmyndun.

En allir ætla að gera vel og flestir meira en þeir hugsanlega geta staðið við. Ímyndið ykkur stjórnarsáttmála átta flokka, hann verður efalaust forvitnilegur. Spurning hvort í því mannvali leynist Jörundur hundadagakonungur okkar tíma, „Alls Íslands Verndari og Hæstráðandi til Sjós og Lands.
Góðar stundir.

Páll Friðriksson
ritstjóri

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir