Húnavaka á Heimilisiðnaðarsafninu
Á Húnavöku, sunnudaginn 18. júlí, verður frá kl. 14:00 sérstök dagskrá í Heimilisiðnaðarsafninu. Konur taka ofan af, kemba og spinna á rokk og halasnældu. Einnig verður prjónað og ofið í vefstól, heklað og gimbað og sýndur margskonar útsaumur.
Gestum er velkomið að slá í vef eða prufa að spinna, læra gamla krosssauminn, gimba og hekla. Aðgangseyrir er kr. 600.- og 500.- fyrir eldri borgara - ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Innifalið í aðgangseyri er kaffi og kleinur og smakk af Kosta sviðasultu. Um kaffileitið munu þýðir harmonikkutónar flæða allt um kring.
Eins og fram hefur komið að þá var Heimilisiðnaðarsafnið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna árið 2010 ásamt Nýlistasafninu og Byggðarsafninu í Glaumbæ. Að þessu tilefni var stjórn safnsins, sveitarstjórnum og Menningarráði Norðurlands vestra, boðið til Bessastaða þar sem forseti Íslands afhenti verðlaunin sem að þessu sinni féllu í skaut Nýlistasafnsins.
Heimilisiðnaðarsafnið þakkar fulltrúum sveitarstjórna og framkvæmdastjóra Menningarráðs sem ásamt mökum lögðu á sig ferð til Bessastaða til að vera þar viðstödd verðlaunaafhendinguna.
Það þykir mikill heiður og viðurkenning á störfum safna að hljóta tilnefningu til íslensku safnaverðlaunanna, en um leið áskorun til þeirra sem að safninu standa að hlúa að sínu safni.
Heimsókn þín er styrkur til safnsins - vertu velkominn
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.