Húnaþing vestra undirritar samning um Gott að eldast

Frá undirskrift samningsins. Til vinstri er Jóhanna Fjóla Jóhannesdottir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, en Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, til hægri. MYND: HUNATHING.IS
Frá undirskrift samningsins. Til vinstri er Jóhanna Fjóla Jóhannesdottir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, en Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, til hægri. MYND: HUNATHING.IS

Húnaþing vestra og Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) hafa undirritað samning um rekstur samhæfðrar þjónustu fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu. Í frétt á síðu Húnaþings vestra segir að samningurinn, sem tekur gildi 1. janúar 2025, sé byggður á aðgerðaáætlun stjórnvalda, Gott að eldast, sem samþykkt var á Alþingi þann 10. maí 2023.

„Markmið samningsins er að veita heildræna og skilvirka félags- og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum, með það að markmiði að tryggja örugga búsetu eldri borgara og að þeir geti dvalið heima við sem eðlilegastar aðstæður. HVE mun annast rekstur þjónustunnar.

Í gegnum samstarfið verður lögð áhersla á að veita þjónustu og umönnun á einum stað, þar sem félagsleg þjónusta, heimahjúkrun og dagdvöl verða sameinuð. Markmið er að bæta nýtingu fjármuna og mannafla, innleiða velferðartækni og fjarheilbrigðisþjónustu.

Undirbúningur framkvæmdar þjónustunnar er hafinn og aðilar munu vinna að því að tryggja að núverandi þjónusta verði aðlöguð að nýju mati á þörfum þjónustunotenda,“ segir í fréttinni.

Samningurinn gildir til 31. desember 2027 en hann verður endurskoðaður árlega í samræmi við þróun þjónustunnar og þarfir eldri borgara í Húnaþingi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir