Húnakaffi, nýtt bakarí á Blönduósi
Húnakaffi er lítið handverksbakarí á Blönduósi sem Brynjar Þór Guðmundsson setti á fót í sumar eftir miklar vangaveltur og hvatningu bæjarbúa. Brauðin þykja afbragðsgóð og eykst vöruúrvalið með hverri vikunni sem líður. Feykir hafði samband við Brynjar Þór sem sagði frá tilurð bakarísins og framtíðarhorfur.
Brynjar segir hugmyndina að nafninu vara gamla eða frá því um 2005. „Þegar ég var í bakaranámi og var að spjalla við samnemendur mína um bakarí og nafnagiftir fannst mér nafnið bara nokkuð flott en þá vorum við pabbi og mamma með Bakaríið á Blönduósi. Þegar ég sat einn heima á 31. afmælisdeginum mínum 2017, þá nýlega skilin, og hafði tapað forræðisdeilu, og allt bara í rugli og velti fyrir mér hvert lífið hefði farið, fór ég að hugsa aftur í tímann og þá kviknaði áhuginn. En eftir um tvo mánuði slokknaði sú pæling, skortur á húsnæði og vesen við að finna vélar og tæki svo ég lagði það á hilluna og hélt áfram með lífið. En svo veturinn 2018 þá svona datt upp allt það sem ég hefði viljað og ég ákvað að bara að láta vaða, stofnaði fyrirtækið og fékk leiguverð í gamla Ömmukaffi. En svo ákváðu eigendurnir að selja frekar en að leigja og reyndist það vera full stór biti fyrir mig með standsetningu og vélakaupum.
Hélt ég bara ótrauður áfram og fékk á endanum húsnæði í gömlu byggingavöruversluninni og flestar af þeim vélum sem mig vantaði fundust hratt og vel,“ segir Brynjar aðspurður um tilurð bakarísins. Eitthvað gengu framkvæmdir hægt vegna skorts á iðnaðarmönnum svo Brynjar tók til hendinni og henti sér sjálfur í framkvæmdir. Bakaríið var svo opnað mánudaginn 27. júlí í sumar eftir mikið baks, eins og hann segir sjálfur.
Öll plön eiga það til að klikka
„Sennilega er þetta bara sambland af fortíðarþrá og ævintýramennsku sem setur þetta verkefni af stað í bland við það að fólk var orðið þreytt á lélegu brauðaúrvali hér á svæðinu. Svo fékk ég mikla hvatningu til að fara af stað.“
Heimildir Feykis herma að nýja bakaríið hafi fengið gríðargóðar móttökur og hefur Brynjar fengið mikið hrós fyrir brauðin sem og kökurnar. „Salan fór vel af stað. Þó vill maður alltaf fá meira svo hægt sé að bæta við fólki og fjölga störfum á svæðinu. Eins og staðan er í dag hefur heilhveitibrauðið verið vinsælast og svo þriggjakorna- og sólblómabrauðið.“
Brynjar auglýsti á Facebooksíðu sinni eftir því hvað fólk vildi helst sjá nýtt í vöruúrvalinu og segir hann það hafa verið gert til þess að ýta við fólki og leyfa því að taka svolítið þátt í þeirri ákvarðanatöku. „Niðurstöðurnar voru þær að ég þarf sennilega að skella mér í tækjakaup en kleinur, ástapungar og annað sambærilegt sem þarfnast djúpsteikingarpotts voru ofarlega þar. Nokkrir töluðu um að ég ætti að fara að senda á Skagfirska efnahagsvæðið en sennilega sleppi ég því í bili. Það sem ég hef einna helst lært á þessu er að öll plön eiga það til að klikka eða tefjast vegna furðulegustu hluta þannig að núna er það bara að byggja upp fyrirtækið og svo freista þess að ná inn á Vestursýsluna þegar þannig liggur við. Að öðru leyti er það bara að vera með góðar vörur á góðu verði og styrkja sig þannig áfram. Er svo sem að horfa í kringum mig með tækifæri og það kemur í ljós hvernig fer.“
Nafnið Húnakaffi bendir til þess að um kaffihús sé að ræða en svo er víst ekki og segir Brynjar það helgast af því að aðgengi sé ekki nógu gott eins og er en ætlunin var að taka yfir húsnæðið sem Teni er í dag. „Hver veit hvernig spilast úr þessum málum. Ætlunin var ekki að fjölga kaffisöluaðilum á svæðinu heldur taka einn yfir, þannig að núna er ég bara að spila þetta eftir hendinni og sjá hvernig það gengur,“ segir Brynjar í lokin.
Feykir óskar Brynjari og Húnakaffi til hamingju og velfarnaðar í framtíðinni.
Ath.! Viðtalið við Brynjar Þór birtist í Feyki vikunnar en þar varð blaðamanni á að rugla saman framtíð og fortíð inn í umræðuna því þar stóð að Brynjar ætli sér að taka yfir húsnæðið sem Teni er í í dag. Það er ekki rétt því það var einungis í plönum áður og hefur verið leiðrétt í netútgáfunni. Brynjar Þór og rekstraraðilar Teni eru beðnir afsökunar á mistökunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.