Hugleiðingar við lok kjörtímabils

Þegar líður að lokum kjörtímabils er gott að líta aðeins um öxl og meta hvernig til hefur tekist. Þegar við skoðum hvaða markmið við settum okkur í upphafi og horfum svo á hverju við höfum áorkað get ég sagt að ég er nokkuð sáttur við árangurinn. Auðvitað er ekki allt búið en við höfum komið býsna miklu í framkvæmd.

Við höfum þrátt fyrir miklar framkvæmdir og Covid, sem hefur haft töluverð áhrif á fjármál sveitarfélagsins, alltaf náð að skila ársreikning með afgangi og þar ber að þakka forstöðumönnum sveitarfélagsins fyrir þeirra miklu vinnu við að koma til móts við þær aðgerðir sem við urðum stundum að grípa til eins og t.d. lokanir í Covid og margt fleira.

Stærsta verkefnið er auðvitað viðbygging við grunn- og tónlistarskólann sem var nauðsynleg framkvæmd fyrir samfélagið allt.

Dæmi um önnur verkefni sem farið hefur verið í eru:

  • Búið er að koma ljósleiðara á alla bæi í dreifbýli.
  • Unnið er að endurnýjun á hitaveitu á Hvammstanga.
  • Staðið hefur verið fyrir byggingu sex leiguíbúða við Lindarveg.
  • Hafin er vinna við framtíðaraðstöðu íþrótta- og útivistarsvæðis í Kirkjuhvammi.
  • Móttaka flóttamanna frá Sýrlandi.
  • Öldungaráði komið á.

Auk þessara verkefna komst Vatnsnesvegur á samgönguáætlun. Við hefðum gjarnan viljað að það verkefni væri komið lengra en með dyggri aðstoð og samvinnu við íbúa við veginn er það nú samt þannig að á þessu ári og því næsta munu fara um 800 milljónir í Vatnsnesveg.

Allt að framantöldu eru verkefni sem hafa gert okkar góða samfélag enn betra. Ég er mjög stoltur af þessari sveitasjórn sem hefur verið mjög samheldin allt kjörtímabilið. Auðvitað höfum við ekki alltaf verið sammála en við höfum haft það fyrir vana að tala saman og virða skoðanir hvers annars. Það er ekki sjálfgefið eftir kosningar að meiri- og minnihluti ákveði að vinna saman að því að gera samfélagið betra og treysti hvor öðrum fyrir verkefnum. Auðvitað er það alltaf betra ef við getum unnið saman og nýtt styrkleika hvers sveitarstjórnarfulltrúa. Við megum þó ekki gleyma því að traust er ekki sjálfgefið og við verðum alltaf að vinna í því. Þannig kýs ég að vinna og vona að við náum að byggja upp þetta traust þegar búið verður að telja upp úr kjörkössunum þann 14. maí.

Þorleifur Karl Eggertsson
Skipar 1. sæti á B-lista Framsóknar og annarra framfarasinna í Húnaþingi vestra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir