Hrefna Jóhannesdóttir, formaður samstarfsnefndar í Skagafirði, hvetur alla til að mæta á kjörstað og kjósa út frá eigin sannfæringu
Hrefna Jóhannesdóttir, skógarbóndi á Silfrastöðum í Blönduhlíð, er oddviti Akrahrepps og formaður samstarfsnefndar hreppsins og Svf. Skagafjarðar. Í nefndinni sitja tíu fulltrúar, fimm frá hvoru sveitarfélagi og tveir til vara. Hrefna er ánægð með þátttöku á íbúafundum og ekki síst fyrir málefnalegar og góðar umræður sem fram fóru. En fyrst er hún spurð hvernig sameiningarviðræður hafi gengið hjá nefndinni.
Hrefna segir samhljóm hafa verið innan nefndarinnar um að það hafi verið afar áhugavert að ráðast í þá greiningarvinnu sem unnin var fyrir samstarfsnefndina og jafnframt forsenda álits nefndarinnar. „Einkennandi fyrir vinnuferlið var lausnamiðað viðhorf og vilji til þess að sjá samfélagið okkar eflast og dafna,“ segir hún en hvaða mál ætli hafi verið erfiðust eða tekið mestan tíma að komast að niðurstöðu?
„Það er veikleiki að stjórnsýslan almennt, ekki bara hér í Skagafirði heldur út um allan heim, virðist skorta nokkuð upp á að vera nógu gagnsæ eða skilvirk. Það þarf að ríkja traust á milli íbúa og kjörinna fulltrúa og ein leið til þess er að opna stjórnsýsluna fyrir bæði virkari þátttöku íbúa í ferlinu sem leiðir að ákvarðanatöku og eins með því að miðla betur upplýsingum svo hægt sé að fylgjast betur með þróun mála og framkvæmdum sem varða íbúana miklu. Sumir óttast að vegalengdin verði of löng frá íbúum til kjörinna fulltrúa eða til þeirra sem taka ákvarðanir en það er ekki síður mikilvægt að fækka milliliðum þar sem það er hægt. Skoða þarf fyrirkomulag sem mun auka skilvirkni í stjórnsýslu og er t.d. verið að skoða fullnaðarafgreiðsluheimildir innan ákveðinna nefnda.“
Fjármálin töluvert rædd
Hrefna er bjartsýn á að sameiningartillagan verði samþykkt og segir það ljóst að ef samfélagið vilji fara fram á við, þá muni áhugi fólks aukast á því að taka þátt í því starfi og þeirri uppbyggingu. „Ég er því bjartsýn og trúi því að fleiri en færri sjái tækifæri sem felast í því að leiða fólk saman til að vinna að sameiginlegum hagsmunum okkar allra en eins og við vitum þá er samstarfið í dag mikið á flestum sviðum.
Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta afkomu sameinaðra Skagfirðinga?
„Fjármál sveitarfélaganna tveggja hafa verið rædd töluvert, annars vegar viðkvæmur tekjugrundvöllur Akrahrepps og hins vegar skuldastaða Svf. Skagafjarðar. Bæði sveitarfélögin uppfylla helstu viðmið um fjármál og rekstur í dag, en nefndin telur að ef fara á í áætlaðar fjárfestingar vegna nauðsynlegra framkvæmda á næstu árum þá eigi sameinað sveitarfélag auðveldara með að standa undir því,“ segir Hrefna.
Erum við ekki öll Skagfirðingar?
Hvaða nafn hún gæti hugsað sér að sameinað sveitarfélag bæri segir hún það algengt verklag að kalla eftir tillögum að nafni og bera því næst undir íbúa í atkvæðagreiðslu. „Ég ætla að bíða og sjá hvaða tillögur koma upp úr hattinum áður en ég tjái mig um það. Ég á samt erfitt með að sjá fyrir mér að einhver eigi eftir að segja að hann búi í „Skagafirði hinum forna“. Erum við ekki öll Skagfirðingar?“
Tveir kynningarfundir voru haldnir fyrir íbúa héraðsins meðan á óformlegum viðræðum stóð og segir Hrefna að eftir að formlegar viðræður hófust hafi fjórir fundir farið fram, tveir í októberlok til að kynna stöðuna og niðurstöður úr helstu málaflokkum og svo tveir í febrúarbyrjun til að kynna framtíðarsýn samstarfsnefndarinnar og forsendur sameiningartillögunnar.
„Þetta voru allt staðfundir sem þó var einnig streymt á Netinu, nema fyrri fundurinn nú í febrúar sem var alfarið haldinn í gegnum streymi eða gegnum fjarfundarboð. Þátttaka var góð, sérstaklega í Akrahreppi þar sem fóru fram fjörugar umræður. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fyrir málefnalegar og góðar umræður,“ segir hún en minnisblöð og kynningarmyndbönd um helstu málaflokkana hafa verið birt á heimasíðum og samfélagsmiðlum sveitarfélaganna og verkefnisins skagfirdingar.is. Eins gerðu nemendur í áfanganum lífsleikni við FNV myndband um málið.
Að lokum vill Hrefna hvetja alla til þess að kynna sér málið vel, mæta á kjörstað og kjósa út frá eigin sannfæringu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.