Hólmfríður Sveinsdóttir fékk hvatningarviðurkenningu FKA
Viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnurekstri var haldin í gær við hátíðlega athöfn þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. Hátíðin er nú haldin í átjánda sinn og voru veittar viðurkenningar til þriggja kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd. Doktor Hólmfríður Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Iceprotein ehf og Protis ehf. á Sauðárkróki hlaut hvatningarviðurkenninguna.
FKA viðurkenningin er veitt í þremur flokkum:
FKA viðurkenning, fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd, kom í hlut Guðrúnar Hafsteinsdóttur, eins eiganda og markaðsstjóra Kjöríss, formanns Samtaka iðnaðarins og varaformanns Samtaka atvinnulífsins.
FKA þakkarviðurkenning er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu. Hana hlaut að þessu sinni Hafdís Árnadóttir, stofnandi og eigandi Kramhússins.
FKA hvatningarviðurkenning er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði. Við henni tók Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein ehf og Protis ehf.
Hólmfríður lauk meistaranámi frá Justus-Liebig Universität í Giessen í Þýskalandi og doktorsprófi í lífvísindum og næringarfræði frá Háskóla íslands 2009. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að „Hólmfríður sé frumkvöðull þegar kemur að nýtingu afurða úr sjávarútvegi, sé aðili að fyrirmyndar samstarfi innan sveitarfélags á landsbyggðinni og milli háskóla- og rannsóknarstofnana með stuðningi atvinnulífsins.“
Í samtali við Feyki sagði Hólmfríður að verðlaunin hafi mikla þýðingu fyrir sig þar sem þetta sé viðurkenning fyrir það starf sem hún og hennar fólk eru að vinna að í Protis og Iceprotein. „Þetta varpar einnig ljósi á frumkvöðlastarf kvenna og vonandi verður þetta ekki einungis hvatning fyrir mig heldur líka aðrar konur sem vinna að nýsköpun,“ segir Hólmfríður og viðurkennir að verðlaunin hafi komið mjög á óvart. „En hugurinn fylltist fljótt þakklæti. Ég er fyrst og fremst þakklát öllu því góða fólki sem hefur unnið með mér að því að byggja upp Iceprotein og Protis.“
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.