Höfuðið vantaði á herlið Stólanna
Það mátti búast við hörkuleik í Ljónagryfju Njarðvíkinga í lokaleik 3. umferðar Subwaydeildarinnar í gærkvöldi þegar heimamenn tóku á móti liði Tindastóls. Vonir stuðningsmanna Stólanna stóðu til þess að Arnar Björns hefði náð að hrista af sér meiðslin sem hafa haldið honum fjarri parketinu í síðustu leikjum og það var því kraftmikill löðrungur þegar í ljós kom að hvork Arnar né Herra Skagafjörður, Pétur Rúnar Birgisson, væru klárir í slaginn. Það var deginum ljósara að aðrir yrðu að axla ábyrgð og stíga upp en því miður, án leikstjórnendanna frábæru, þá var liðið líkast höfuðlausum her. Njarðvíkingar gengu á lagið og lönduðu öruggum 91-68 sigri.
Njarðvíkingar tóku strax til óspilltra málanna og komust í 5-0 og 11-3 en Stólarnir náðu að svara fyrir sig, enda vantar ekki gæðaleikmennina í liðið. Richotti kom heimamönnum í 22-14 en Siggi, Zoran og Keyshawn löguðu stöðuna í 24-20 áður en leikhlutinn var úti. Taiwo negldi niður þristi í upphafi annars leikhluta og Zoran bætti tveimur stigum við og skyndilega voru Stólarnir komnir yfir og útlit fyrir spennuleik. Næstu mínútur voru skemmtilegar, Njarðvíkingar náðu aftur forystunni en Orri Svavars jafnaði 31-31 þegar fjórar mínútur voru liðnar. Síðustu þrjár mínútur fyrri hálfleiks snérist leikurinn og það mest fyrir tilstilli Deon Basile sem var frábær bæði í vörn og sókn. Meistaraverkið hans var síðan að kynda svo duglega undir Keyshawn að okkar maður kastaði boltanum í hann og fékk dæmt á sig tæknivíti og fékk þar með fjórðu villuna sína. Að Key kæmist í villuvandræði fyrir hálfleik var nánast það eina sem ekki mátti gerast hjá Stólunum. En hvað um það; staðan breyttist úr 34-33 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks í 52-37 í hálfleik (18-4 sveifla).
Tindastólsmenn áttu engin svör í þriðja leikhluta sem heimamenn unnu með 15 stigum og staðan 81-51 að honum loknum. Fjórði leikhluti var því bara formsatriði að þessu sinni en hann unnu þó Stólarnir 10-17 og náðu að láta lokatölur líta aðeins betur út – eða þannig.
Erfiður dagur á skrifstofunni hjá Vlad og félögum. Án Arnars og Péturs réðu okkar menn illa við hraða heimamanna. Það verður þó að segjast eins og er að það er gott að sjá Vlad óhræddan við að henda ungu strákunum inn á gólfið, það er ekki laust við að það hafi verið skortur á því síðustu tímabil. Í gær var Drungilas stigahæstur Stólanna með 17 stig og tók átta fráköst. Þá mæddi talsvert á Ragnari sem gerði ellefu stig og tók níu fráköst. Keyshawn gerði 15 stig en lét Basile fara illa með sig. Aðrir voru undir tíu stigunum og vonbrigði að sjá Zoran og Taiwo ekki gera betur þegar neyðin var mest en að sjálfsögðu riðlast leikur Tindastóls þegar báða leikstjórnendur liðsins og reynslubolta vantar.
Næsti leikur Tindastóls er á Egilsstöðum næstkomandi fimmtudag. Koma svo!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.