Hlökkum til komandi tíma í stærra sveitarfélagi
Þann 18. apríl 2018 kom hópur fólks alls staðar úr sveitarfélaginu saman í framhéraði Skagafjarðar. Tilefni þessarar samkomu var að ræða komandi sveitarstjórnarkosningar og hvernig best væri að komast til áhrifa, því allir voru á sama máli að margt mætti betur fara í okkar sveitarfélagi. Mest var rætt um að styrkja þyrfti grunnþjónustu sveitarfélagsins og að tryggja jafna þjónustu um allt sveitarfélagið.
Skilvirk og gagnsæ stjórnsýsla var einnig eitt af umræðuefnum kvöldsins og hvernig hægt væri að virkja stjórnsýsluna með skilvirkni og gagnsæi er varðar hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Niðurstaða hópsins þetta kvöld var að bjóða fram nýtt afl til komandi sveitarstjórnarkosning 2018 og við tók skemmtileg en krefjandi kosningabarátta. Byggðalistinn hlaut 20,6% atkvæða og tvo menn inn í sveitarstjórn. Byggðalistinn samanstendur af ólíku fólki frá mismunandi svæðum innan Skagafjarðar. Það er einn af kostum Byggðalistans, því þannig teljum við okkur betur upplýst hverjar þarfir íbúa eru á hverjum stað fyrir sig.
Meðal þeirra framkvæmda sem okkur eru hugleikin eru til dæmis fyrirhugaðar framkvæmdir við Varmahlíðarskóla, aðgengismál við Félagsheimilið Bifröst, endurnýjun gatna í Varmahlíð, gatnagerð nýrra gatna á Sauðárkróki og Varmahlíð, endurbætur á leikskólalóð á Hólum og hönnun og jarðvegsvinna við íþróttahús á Hofsósi, svo fátt eitt sé nefnt. Verið er að bregðast við aukinni þörf á leikskólaplássum á Sauðárkróki, en þar þurfum við svo að halda áfram og huga að fjölgun til framtíðar. Fyrir þessum verkefnum höfum við talað, og það er ánægjulegt þegar samstaða ríkir innan sveitarstjórnar um svo mikilvæg málefni. Áhersla fulltrúa Byggðalistans hefur verið að styrkja stoðir grunn- og leikskóla bygginga um allt hérað. Við ætlum að halda áfram að koma fram af heillindum og færa rök fyrir okkar málum. Við erum stolt af okkar framlagi til sveitarfélagsins Skagafjarðar og hlökkum til komandi tíma í stærra sveitarfélagi.
/Byggðalistinn
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.