Hljóðfærið mitt - Rögnvaldur Valbergsson

Rögnvaldur og Hammondinn frægi. Mynd: Aðsend
Rögnvaldur og Hammondinn frægi. Mynd: Aðsend

Feykir fékk Rögnvald Valbergsson til að svara því hvert hans uppáhalds hljóðfæri væri og greina nánar frá því. Rögnvald þarf nú vart að kynna en hann hefur verið áberandi í skagfirsku tónlistarlífi í fleiri, fleiri ár. Rögnvaldur er tónlistarkennari við Tónlistarskóla Skagafjarðar, organisti í Sauðárkrókskirkju, undirleikari Kvennakórsins Sóldísa ásamt því að útsetja og sjá um hljómsveitarstjórn á mörgum tónleikum sem haldnir eru víðsvegar um land.

Hvaða hljóðfæri heldur þú mest uppá af þeim sem þú átt? (tegund, týpa, árgerð)
Hammond C-3 orgel, árgerð 1970

Ert þú fyrsti eigandinn að hljóðfærinu? Hvar keyptir þú það? Ef ekki hver/hverjir áttu það á undan þér?
Ég er fimmti eigandi. Fyrsti eigandi Var Karl J. Sighvatsson í Trúbrot, þá Pétur Hjaltested og svo Nikulás Róbertsson, þá eignaðist Hilmar Sverrisson það og ég keypti það af honum. Orgelið var orðið illa farið af slæmri meðferð en ég fékk Hjört Ingason listasmið hér í bæ að taka kassann í gegn og heppnaðist afar vel, svo tók sjálfur Þórir Baldursson innvolsið (electronikina) fyrir tveimur árum og hljóðfærið er sem nýtt í dag.

Hefur hljóðfærið hljómað á einhverjum plötum eða lögum?
Fjölmörgum plötum, Trúbrot, Pelican, Paradís, Póker og Start, svo fátt eitt sé nefnt, og á jólaplötu hjá Geirmundi meira að segja.

Hefur þetta hljóðfæri eitthvað fram yfir svipuð hljóðfæri að þínu mati?
Nei ekki endilega, það er að vísu búið að setja í það svokallaðan Stringbass sem gefur því skemmtilega möguleika (hljómar svipað og kontrabassi).

Gætir þú hugsað þér að selja það einhvern tíman?
Helst ekki fyrr en ég verð hættur að spila.

Hefur þú séð á eftir einhverju hljóðfæri sem þú værir til í að eiga í dag?
Já, t.d. Burns Marvin gítar sem ég keypti af Elíasi Þorvalds í Gautum frá Siglufirði og hann hafði keypt hann af Gunna Þórðar í Hljómum frá Keflavík, þetta var reyndar ekki neitt sérstakur gítar, aðallega fallegur og svo út af sögunni, á reyndar miklu betri gítara í dag.

Birtist í 23. tölublaði Feykis árið 2021

/SMH

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir