Hjólað í vinnuna - Leiðari Feykis

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við setningu Hjólað í vinnuna fyr í morgun. Mynd af vef ÍSÍ.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við setningu Hjólað í vinnuna fyr í morgun. Mynd af vef ÍSÍ.

Það er gaman að fylgjast með því hvernig mannlíf hefur breyst í gegnum árin og hvernig fólk hefur brugðist við breyttu samfélagi. Margir hafa aukið útiveru og stunda heilbrigðan lífsstíl ólíkt því sem ég man eftir frá því ég sjálfur var á unglingsárum. Ekki rekur mig minni til að hafa séð hlaupandi manneskju nema fótboltaiðkendur og einstaka frjálsíþróttamenn á íþróttavellinum. Ef svo skyldi hafa verið að ég hafi séð einhvern á hlaupum var hann annað hvort á eftir einhverju húsdýri eða of seinn í búðina.

Ekki man ég eftir því að mér hafi verið skutlað eitt né neitt enda foreldrar mínir vanir því að ganga þangað sem erindast þurfti. Ég átti reyndar það gott að róluvöllur var í bakgarðinum, skólinn hinu megin við götuna og íþróttasvæðið ekki langt undan. Þá var sjoppan örfáa metra frá, kjörbúðin og Verslunin Tindastóll svo ekki þurfti að leita langt yfir skammt í mínum litla heimi. Ég minnist þess þó hve óhemju mér leiddist að ganga upp í Hlíðarhverfi til að hitta þar skólafélaga mína svo ég snéri mér að öðrum sem bjuggu mér nær.

Í þá daga var auðvelt að finna sér vinnu af og til þó ungur væri. Fermingarárið var uppgripasamt en páskafríinu varði ég í minkabúinu á Gránumóum í ígripavinnu ásamt fleirum á mínu reki. Þá hafði ég náð að tala mig inn á Steindór á höfninni sem sá um að afferma flutningaskipin og vantaði alltaf mannskap áður en gámaflutningar komu til sögunnar. Einhvern hjólagarm átti ég til að ferðast á en það var heldur betur völlur á unga manninum þegar hann keypti sér nýtt reiðhjól fyrir fermingarpeningana svo hægara varð að hjóla út á Eyri. Síðar um sumarið fékk ég vinnu á sláturhúsinu svo hjólið kom aldeilis að góðum notum.

Það var þó ekki talað um hjólalífstíl, eins og heyra má að fólk stundi í dag. Fólk hjólaði af nauðsyn og ég var fljótur að henda dótinu þegar ég fékk bílprófið og keyrði alla spotta eftir það. Ég er latur að eðlisfari og myndi vilja keyra allt sem ég þarf að sækja. Ég er hins vegar að reyna að herða mig upp og hjóla meira enda á ég ágætis reiðhjól og svo bý ég í heilsueflandi samfélagi.

Stundum næ ég nú samt að sannfæra sjálfan mig um það að þann daginn verði ég að mæta á bílnum í vinnuna því það sé aldrei að vita nema ég þurfi að skreppa. Það er eins og sú hugsun hafi orðið eftir á 20. öldinni að hægt sé að skreppa á hjólinu.

Í dag hefst átak ÍSÍ Hjólað í vinnuna, sem ætlað er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Í tilkynningu frá sambandinu segir að undanfarinn áratug hafi orðið gríðarleg vakning á hjólreiðum sem heilsusamlegum samgönguvalkosti. Ætla má að margir þátttakendur hafi tekið hjólreiðar upp sem lífstíl í framhaldi af þátttöku sinni í verkefninu.

Ætli ég verði ekki að reyna að standa mig þó svo ég skrái mig ekki í keppnina sjálfa. Svo segir ístran.

Góðar stundir.
Páll Friðriksson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir