Hestamenn éta hross

Hestamenn fá stundum þá spurningu hvort þeir neyti nokkurn tíman hrossakjöts. Það væri svona svipað og hundaeigandi æti hund. En nú er blásið til hrossakjötsveislu í Tjarnarbæ félagsheimili Léttfetamanna á laugardaginn.


Boðið verður upp á hrossakjöt í ýmsum útfærslum s.s. hrossagúllassúpu og saltað hrossakjöt í hádeginu en um kvöldið verður meira lagt í og þá sett upp hlaðborð. Þar verður á boðstólnum saltkjöt, reykt og grafið hrossakjöt, hefðbundið gúllas, ragú í Cantonees, snitsel, steik með bernes, roast beef með remúlaði og að sjálfsögðu kaffi og skúffukaka á eftir.

Smári Haraldsson einn forsprakka veislunnar segir að viðburður þessi sé til styrktar barna og unglingastarfi Léttfeta enda eru krakkarnir í deildinni virkir þátttakendur í framreiðslu og undirbúningnum.

–Meiningin er að láta ýmsar myndir og atburði rúlla á skjávarpanum meðan matast er og reynt verður að skapa sem þægilegast andrúmsloft fyrir gáfulegar samræður manna í milli, segir Smári og áréttar að allir séu velkomnir hvort sem þeir séu hestamenn eru ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir