Hertar sóttvarnaráðstafanir tóku gildi í gær

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis um hertar sóttvarnaráðstafanir sem tóku gildi í gær, laugardaginn 31. október. Sömu reglur munu gilda um allt land. Meginbreytingin felst í 10 manna fjöldatakmörkum í stað 20 áður. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Gert er ráð fyrir að reglur um hertar aðgerðir gildi til og með 17. nóvember. Þær verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti segir að í minnisblaði sóttvarnalæknis komi fram að smit í samfélaginu sé enn mikið, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til 20. október síðastliðinn. Því sé hætta á að hópsýkingar brjótist út og valdi enn meira álagi á heilbrigðiskerfið sem sé mikið fyrir. Bent er á að Landspítali sé á neyðarstigi vegna mikils álags og að margvíslegri heilbrigðisstarfsemi hafi verið frestað til 15. nóvember. Mikið álag sé á þeim fimm farsóttarhúsum sem nú eru starfrækt og meira um veikindi meðal þeirra sem þar eru í einangrun en áður hefur verið í faraldrinum. Því er það mat sóttvarnalæknis að grípa þurfi til hertra aðgerða til að takmarka útbreiðslu veirunnar og koma þannig í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af völdum COVID-19 og annarra sjúkdóma.

Helstu takmarkanir:
Allar takmarkanir ná til landsins alls.
10 manna fjöldatakmörk meginregla.
- Heimild fyrir 30 manns í útförum en 10 að hámarki í erfidrykkjum.
- 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins.
- Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
- Fjöldatakmarkanir gilda ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla.
10 manna fjöldatakmörk eiga ekki við þegar fleiri búa á sama heimili.

Íþróttir óheimilar.
Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.
Sundlaugum lokað.
Sviðslistir óheimilar.

Krám og skemmtistöðum lokað.
Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til 21.00.
Grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu (gilti áður um börn fædd 2005 og síðar).

Undanþáguheimildir:
Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkunum vegna félagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast. Þar undir fellur m.a. heilbrigðisstarfsemi og félagsþjónusta.
Ráðherra getur veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlegra keppnisleikja.

Reglugerð um samkomutakmarkanir vegna farsóttar
Minnisblað sóttvarnalæknis

Ný reglugerð um takmarkanir á skólastarfi verður kynnt í næstu viku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir