Hertar aðgerðir vegna Covid-19 – Sautján smitaðir á Norðurlandi vestra
Enn förum við halloka í baráttunni við vágestinn Covid-19 og í morgun ákvað ríkisstjórnin, í samráði við sóttvarnaryfirvöld, að herða þyrfti enn frekar á samkomutakmörkunum. Frá og með miðnætti verða almennar fjöldatakmarkanir miðaðar við 50 manns en með notkun hraðprófa verður heimilt að efna til viðburða með að hámarki 500 manns í sóttvarnahólfi.
Opnunartími veitingastaða verður styttur um klukkustund. Hámarksfjöldi gesta á sund- og baðstöðum, líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum miðast við 75% af heimiluðum hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi. Reglugerð um þessar aðgerðir gildir til og með 8. desember.
Á vef stjórnarráðsins segir: „Mikil fjölgun smita innanlands með vaxandi álagi á heilbrigðiskerfið, smitrakningu og sóttvarnahúsa er meginástæða hertra takmarkana. Vegna ástandsins hefur orðið veruleg röskun á ýmissi þjónustu Landspítala og skortur er á starfsfólki. Vaxandi álag er á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sama máli gegnir um margar aðrar heilbrigðisstofnanir segir í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra. Þá sé starfsemi rakningateymis í uppnámi, sóttvarnahús að fyllast og álag á Læknavaktina og heilsugæsluna hefur aukist vegna faraldursins.
Vonir bundnar við komandi örvunarbólusetningu
Sóttvarnalæknir segir harðar sóttvarnaaðgerðir nauðsynlegar meðan unnið er að því að ná víðtæku ónæmi í samfélaginu með örvunarbólusetningum sem þegar eru hafnar. Gert er ráð fyrir að boða um 160.000 manns um allt land í örvunarbólusetningu fyrir áramót.“
Á covid.is mátti sjá í morgun að 176 manns greindust smitaðir í gær og eru nú 1585 einstaklingar í einangrun á landinu. Tuttugu eru á sjúkrahúsi og fjórir á gjörgæslu.
Hér á Norðurlandi vestra eru nú 17 manns í einangrun en 12 í sóttkví samkvæmt tölum á covid.is en í töflu sem aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra sendi frá sér í gær, og er birt hér með fréttinni, þá voru 16 í einangrun og 22 í einangrun. Merkilegt er að sjá dreifingu smita en þessi 16 smit dreifast á tíu póstnúmer á svæðinu. Flestir eru smitaðir á Sauðárkróki eða fimm manns.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.