Heim með sunnanblænum
Út er komin bókin Heim með sunnanblænum eftir Axel Þorsteinsson f.v. bónda í Litlubrekku á Höfðaströnd.
Heim með sunnanblænum er gefin út af börnum höfundar en umsjón með útgáfu hafði Hjalti Pálsson. Um höfund bókarinnar og bókina sjálfa, hefur Hjalti ritað á bakhlið hennar eftirfarandi:
Höfundur þessarar bókar er Axel Þorsteinsson bóndi í Litlubrekku á Höfðaströnd á árunum 1953 – 1987. Hann fæddist á Vatni á Höfðaströnd 28. október 1927 og ólst þar upp við störf til sjós og lands. En hann markaði sér snemma ævibraut sem beindist á götu lífs og gróðurmoldar og sagði eitt sinn: „Ég held ég hafi alltaf verið með bóndann í mér. Mig langaði ekki til neins annars“.
Bókin skiptist í þrjá kafla: Kvæði, lausavísur og þætti sem hvort tveggja eru æskuminningar og gamlar frásagnir úr næsta umhverfi. Þetta er hluti, eða eins konar úrval, þess sem Axel hefur skrifað og samið á langri ævi. Texti hans allur er mótaður af sýn manns sem á sér djúpar rætur í umhverfi sínu, fer um það nærfærnum höndum og umgengst samferðamenn af hlýju og virðingu.
Hægt er að nálgast bókina hjá eftirfarandi: KS Skagfirðingabúð og Varmahlíð, Pálma Rögnvaldssyni Hofsósi, Sögufélagi Skagfirðinga og Dísu Axels á Hólum, disa@holar.is, s- 8668503
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.