Heiðdís Pála Áskelsdóttir vann söngkeppni Friðar 2023
feykir.is
Skagafjörður
23.12.2023
kl. 07.54
Söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Friðar var haldin í Miðgarði Varmahlíð föstudagskvöldið 15. desember sl. og var hin glæsilegasta. Alls voru ellefu söngatriði og eiga allir þátttakendur risa hrós skilið fyrir framlag sitt því mikið hugrekki þarf til að standa uppi á sviði fyrir framan jafnaldra sína og syngja.
Það var því ekki auðveld ákvörðun fyrir dómara kvöldsins að skera úr hver yrði sigurvegari söngkeppni Friðar 2023. Í dómnefnd voru þau Erna Rut, eigandi Crossfit stöðvarinnar 550 á Króknum, Guðbrandur Guðbrandsson, tónlinstarkennari og leikari ásamt dóttur hans Emelíönu Lillý Guðbrandsdóttur, en hún var einmitt sigurvegari í söngvakeppni FNV nú fyrir stuttu.
Að mati dómnefndar var það Heiðdís Pála Áskelsdóttir, dóttir Áskels Heiðars og Völu Báru, sem var sigurvegari kvöldsins en hún söng lagið I‘d rather go blind eftir Etta James. Heiðdís Pála mun því keppa á Norður Orgi fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Friðar en það er undankeppni fyrir söngkeppni Samfésar en úrslitakvöldið fer fram í Laugardagshöllinni 3.- 4. maí 2024.
Í öðru sæti var Ingunn Marín Ingólfsdóttir með lagið Á annan stað eftir Sölku Sól og í þriðja sæti voru þær Ásta Ólöf Jónsdóttir og Hallgerður Harpa Vetrarrós Þrastardóttir með lagið The night we met eftir Lord Huron.
Feykir óskar sigurvegurum keppninnar ásamt öllum þátttakendum til hamingju með glæsilega keppni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.