Hefur sennilega aldrei slegið garð foreldranna jafn oft

Þjálfarinn spilandi. Ingvi Rafn lék 15 leiki í sumar og skoraði í þeim tvö mörk í síðustu tveimur leikjunum. MYNDIR: JÓN ÍVAR
Þjálfarinn spilandi. Ingvi Rafn lék 15 leiki í sumar og skoraði í þeim tvö mörk í síðustu tveimur leikjunum. MYNDIR: JÓN ÍVAR

Feykir heyrði síðast hljóðið í Ingva Rafni Ingvarssyni, þjálfara Kormáks/Hvatar í 2. deildinni í knattspyrnu þegar um sex umferðir voru eftir af mótinu. Þá stóðu Húnvetningar ansi vel, voru í áttunda sæti með 18 stig og virtust nokkuð öruggir með sætið í deildinni. Ingvi Rafn vonaðist eftir sex stigum í næstu tveimur leikjum og það átti að fara langt með að tryggja sætið. Liðið vann ekki einn einasta leik frá þeim tíma en slapp við fall í síðustu umferðinni þar sem KF náði ekki að vinna sinn leik.

Húnvetningar héldu því sínu liði í 2. deild, sem var afrek út af fyrir sig, og því ekki úr vegi að leggja nokkrar spurningar fyrir þjálfarann sem hlýtur að vera farinn að grána á toppnum eftir sumarið.

Þau voru ekki mörg stigin sem komu í hús eftir að Feykir spjallaði við þig síðast, sennilega eitt. Hvað gerðist eiginlega? „Það er rétt hjá þer, lokakaflinn á tímabilinu var ekki eins og við vildum. Það er erfitt að segja nákvæmlega hvað fór úrskeiðis. Þegar maður nær ekki í jákvæð úrslit í langan tíma hefur það auðvitað áhrif á bæði sjálfstraust og trú hjá leikmönnum. Einnig hjalpaði ekki að við vorum að missa marga í leikbönn og meiðsli í síðustu umferðunum.“

Ef þú ert alveg heiðarlegur; áttirðu von á því að Kormákur/Hvöt héldi sætinu í deildinni fyrir lokaumferðina?„Já, ég hafði fulla trú á að við myndum halda okkur uppi. Ég sagði við strákana fyrir leik við hefðum séð ótrúlegri úrslit í fótbolta en Kormákur/Hvöt myndi vinna Víking Ólafsvík. Því miður náðum við ekki vinna okkar leik en blessunarlega unnu Höttur/Huginn sigur á KF. Ég sá fyrir mér við við myndum ná allavega stigi í Ólafsvík og Höttur/Huginn myndi annað hvort vinna eða gera jafntefli við KF og þá værum við í góðum málum.“

Hvernig fannst þér sumarið hjá þínu liði heilt yfir í sumar? „Sumarið fannst mér mjög kaflaskipt. Fyrri hlutinn var mjög góður þar sem mér fannst við vera að spila vel og ná í jákvæð úrslit. Seinni hlutinn var okkur hinsvegar mjög erfiður, en þrátt fyrir það unnum við bæði Reyni og KF í seinni umferðinni. Ef horft er til baka voru það mjög mikilvægir sigrar. Þá voru þrír af okkar allra efnilegustu íslensku leikmönnum, Jón Gísli, Atli og Kristinn, að glíma við meiðsli nánast alla seinni umferðina. Mér fannst liðið sakna þeirra aðeins, þótt þeir hafi spilað marga leiki tæpir. Með þá heila held ég við hefðum náð í fleiri stig. Þá misstum við líka Uros markmanninn okkar þegar nokkrir leiki voru eftir og það sást hversu mikilvægur hann var liðinu. Að sjálfsögðu er maður sáttur að við héldum sæti okkar í deildinni sem nýliðar.

Fjórar umferðir eftir, þið í fallbaráttu og eigið bara eftir að mæta liðum sem eru að berjast á toppnum – hvað hugsar þjálfarinn? „Ég hafði allan tímann trú á mínu liði. Við fórum í alla leiki til að vinna þà. Við áttum erfiða leiki í lokaumferðunum en mér fannst við aldrei gefast upp. Leikmenn gáfu sig alla í þetta og stundum er það bara ekki nóg. Mörg góð úrslit í fyrri umferðinni gáfu leikmönnum trú á verkefnið.

Seinni hluti tímabilsins fer í reynslubankann

Að vera þjálfari liðs sem er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni og það virðist ekkert falla með þér, hvernig tilfinning er það og hvernig líða þessir dagar eiginlega, hvað gerir þjálfarinn til að létta sér lífið? „Ég held maður læri mun meira af tapleikjum og fer sérstaklega seinni hlutinn af tímabilnu í reynslubankann. Sem þjálfari er maður alltaf að leita af leiðum til að liðið sitt spili betur og nái í betri úrslit. Auðvitað verður allt erfiðara bæði fyrir leikmenn og þjálfara þegar mörg óhagstæð úrslit koma í röð. Við reyndum hvað við gátum að vera jákvæðir í gegnum þetta þar sem þetta var alltaf í okkar höndum og fórum við aldrei niður í fallsæti sem gaf manni alltaf þá von að við myndum halda okkur uppi. Það komu dagar sem manni fannst lengri en aðrir og stundum erfitt að bíða eftir næsta leik – þú vilt helst spila daginn eftir tapleik. Ég gerði margt til að létta mér lífið. Heiti potturinn í sundlauginni er einn af mínum uppahálds stöðum til að slaka á. Ég náði einnig að spila smá golf. Ég viðurkenni reyndar að ég hef sennilega aldrei slegið garðinn há mömmu og pabba jafn oft og seinni partinn í sumar.“

Liðinu var af fyrirliðum og þjálfurum liðanna í 2. deild spáð beint niður og það voru ekki margir sem höfðu trú á að lið Kormáks/Hvatar héldi sæti sínu í deildinni. Hversu sætt er að hafa haldið sætinu? „Ótrúlega sætt. Það höfðu ekki margir trú á okkur fyrir mót. Kannski skiljanlegt þar sem við vorum nýliðar og undirbúningstímabilið okkar var ekkert sérstakt eins og oft áður. Við vissum að þetta yrði mun erfiðara verkefni en 3. deildin. Hópurinn kom seint saman eins og vanalega og með enga boðlega æfingaaðstöðu þar til í júlí þannig að það er eiginlega ótrúlegt að við eigum áfram lið í 2.deild.“

Í lokin. Hvað er framundan, verður þú áfram með liðið? „Það verður bara koma í ljós. Samningurinn minn var bara út þetta tímabil sem var að klárast.“ segir Ingvi Rafn og bætir við að hann vilji koma á framfæri innilegum þökkum til þeirra sem studdu við bakið á liðinu í sumar. „Allur stuðningur við liðið er mikilvægur og vonandi verða enn fleiri stuðningsmenn í stúkunni næsta sumar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir